Gagnamagnshljóðfærin verða á sviðinu, sama hvað

Mynd með færslu
 Mynd: EBU

Gagnamagnshljóðfærin verða á sviðinu, sama hvað

17.05.2021 - 11:52

Höfundar

Hljóðfærin í íslenska Eurovision-atriðinu eru heimasmíðuð og runnin undan Suðurlandi, eins og Gagnamagnið allt. Árný Fjóla Ásmundsdóttir átti hugmyndina að hinu þrískipta píanói sem er áberandi í atriðinu og sameinast í hring. Lagið er samið sérstaklega útfrá hljóðfærunum. 

Árný Fjóla fékk föður sinn, Ásmund Lárusson bónda til 25 ára, til liðs við hópinn. Hann er menntaður trésmiður úr FSU, þar sem allt Gagnamagnið kynntist á sínum tíma. „Við pabbi vinnum mjög vel saman og hann hefur hjálpað okkur með öll Gagnamagnshljóðfærin í gegnum tíðina. Hann er mjög viljugur til þess og finnst það svo gaman. Hann er vissulega búinn að vera bóndi í 25 ár en finnst ótrúlega gaman að grípa í smíðina.“

10 years samið útfrá hringpíanóinu

Hljóðfæra- og sköpunargleði hefur einkennt Gagnamagnið allt tíð. „Við vissum að við vildum hafa hljóðfæri í atriðinu í ár og við vildum auðvitað toppa síðari ár,“ útskýrir Árný.

Eins og margir muna voru þau með saxafónþema í hljóðfærum Söngvakeppninni í fyrra þannig að væntingarnar í ár voru miklar. „Fljótlega kom upp hugmynd að búa til hljóðfæri sem myndu sameinast. Þá kom þessi pæling upp, að hljómborðin þrjú myndi hring og Daði samdi gítarsóló inn í lagið sérstaklega kringum það.“ Því má segja að lagið 10 years sé samið útfrá heimasmíðuðu hljóðfærunum. 

Hringpíanóið spilar því stóra rullu í atriðinu og þau Árný Fjóla, Stefán og Jóhann þurfa að hafa hraðar hendur til þess að setja það saman og taka í sundur í laginu. „Við höfum vissulega ekki mikinn tíma en lagið er samt samið þannig að við höfum tíma í þetta.“

Allir vegir liggja til Suðurlands

„Ég vil koma sérstökum þökkum til Fablab sem er nýsköpunarstofa á Selfossi og aðstoðaði okkur við útfærsluna. Þangað getur almenningur komið með hugmyndir sem þau hjálpa manni að útfæra. Þau eru til dæmis með lazer prentara, sem sést í myndbandinu, og skáru út plexiglerið sem við notuðum í hljómborðin og takkana,“ segir Árný Fjóla. Eins og fram hefur komið í fréttum er smit í íslenska hópnum og beðið er frekari frétta úr prófum gærdagsins, niðurstaða og fyrirmæla. Árný Fjóla og allt Gagnamagnið tekur ástandinu af stóískri ró og minnir á að sama hvað gerist, keppi Ísland sannarlega í ár. Hvort heldur sem Gagnamagnið stígur á svið á fimmtudaginn í seinni undanúrslitum eða lokaæfing hópsins verður sýnd. „Hljófærin verða þess vegna með í keppninni í ár og fá að njóta sín!“ 

Í myndbandinu að neðan má sjá gerð Gagnamagnshljóðfæranna, en frá því þau voru teiknuð upp tók um mánuð að smíða þau. 

 

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Spennan eykst í Rotterdam - stífar æfingar fram undan

Menningarefni

Vænta niðurstöðu skimunar um hádegisbil

Menningarefni

Allt galopið í Eurovision-veislunni sem framundan er