Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Flokkar kortleggja kjósendur fyrir kosningar

Mynd: RÚV / RÚV
Forstjóri Persónuverndar segir að þverpólitískt frumvarp um upplýsingaskyldu stjórnmálaflokka vegna vinnslu persónuupplýsinga kjósenda gangi ekki nógu langt. Stjórnmálaflokkarnir hafi fæstir sinnt skyldum sínum nægilega samkvæmt lögum um persónuvernd fyrir síðustu kosningar og þurfi að breyta verklagi sínu.

Fjallað verður ítarlega um málið í Kastljósi í kvöld. 

Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar segir að sex af átta stjórnmálaflokkum hafi beitt djúpri markhópagreiningu svokallaðri örnálgun eða microtargeting fyrir síðustu kosningar. Þó í mismiklum mæli eftir flokkum. Örnálgunin gengur út á að kortleggja skoðanir kjósenda á samfélagsmiðlum, kanna áhugamál, hvaða myndbönd kjósandi líkar við, hvaða efni hann deilir, hvaða vini viðkomandi á og svo framvegis. 

Stjórnmálaflokkar nýta sér þessar upplýsingar til þess að afmarka markhópa sína í kosningabaráttunni. Kjósendur fá því mismunandi upplýsingar eftir því hvaða skoðanir þeir sjálfir hafa. En gengu stjórnmálaflokkarnir of langt fyrir síðustu kosningar?

„Það sem gert var af íslenskum stjórnmálaflokkum fyrir síðustu kosningar hérlendis, fól í sér takmarkaða fræðslu og mögulega ekki það samþykki sem þarf fyrir þær upplýsingar sem eru undir,“ segir Helga.  

Persónuvernd minnir á að stjórnmálaskoðanir séu skilgreindar sem viðkvæmar persónuupplýsingar.

„Og þá máttu ekki vinna slíkar upplýsingar nema hafa skýrt samþykki fyrir því. Þannig að það má segja að nýju persónuverndarreglurnar og lögin sem gilda fyrir næstu kosningar hérlendis að þær gera mikla aukna kröfu um gagnsæi á því hvernig þessar upplýsingar eru unnar. Sem sagt að einstaklingur fái að vita, þú færð þessar upplýsingar útaf því að þú ert metinn í þessum hóp,“ segir Helga.