Sóttvarnaaðgerðir hertar - Daði krossar fingur

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV

Sóttvarnaaðgerðir hertar - Daði krossar fingur

16.05.2021 - 15:34

Höfundar

Forsvarsmenn Eurovision hafa ákveðið að grípa til hertra sóttvarnaaðgerða eftir að COVID-smit kom upp í íslenska og pólska hópnum. Fulltrúar Rúmeníu og Möltu taka ekki þátt í opnunarathöfn keppninnar í dag og að allir þeir sem taka þátt koma hver í sínu lagi. Daði Freyr er sjálfur vongóður um að hann og gagnamagnið verði í beinni útsendingu á fimmtudag.

Þetta kemur fram á vef EBU.

Malta og Rúmenía eru með Íslandi og Póllandi á hóteli og hafa fulltrúar landanna tveggja verið sendir í PCR-próf til að athuga hvort veiran leynist hjá þeim líka. Hótelið var þrifið hátt og lágt í gær eftir að smit greindist hjá pólska hópnum.  

Forsvarsmenn keppninnar vilja í lengstu lög koma í veg fyrir hópsýkingu og hafa því gripið til enn harðari sóttvarnaaðgerða. Þær felast meðal annars í því að þeir sem taka þátt í opnunarathöfninni í dag koma hver í sínu lagi.

Á vef DR kemur fram að sóttvarnaaðgerðir á Eurovision-svæðinu hafi verið mjög strangar og því er óvíst hvort fulltrúar Íslands og Póllands verði með í beinu útsendingunni á fimmtudag. Löndin fá þá að nota upptöku af atriði sínu frá generalprufunni. 

Daði Freyr segir á Twitter-síðu sinni að allir í gagnamagninu séu heilir heilsu og krossi nú fingur að þau geti verið með í beinni útsendingu á fimmtudag. Gangi það ekki verður notast við upptöku af generalprufu á íslenska laginu.

Tengdar fréttir

Innlent

Óvíst hvort Daði stígur á svið—upptaka kemur í staðinn

Einn í íslenska Eurovision-hópnum með COVID