Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Opna nýtt sóttvarnahús í kvöld til að taka á móti fólki

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Rúmlega hundrað komufarþegar hafa farið í sóttvarnahús í dag og Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahúsa, gerir ráð fyrir að í kvöld bætist um það bil áttatíu við þegar flugvél frá Póllandi kemur til landsins. Í kvöld verður opnað fimmta sóttvarnahúsið í Reykjavík og þangað fara farþegarnir frá Póllandi.

„Þeir fara á Rauðará, hótel sem er verið að opna sérstaklega fyrir kvöldið. Þarna höfum við verið margoft áður, þó aðallega með fólk í innanlandssóttkví. Nú notum við þetta fyrir farþega og þeir sem þurfa að vera í innanlandssóttkví verða á farsóttarhúsinu Lind, sem við höfum svosem notað áður líka,“ segir Gylfi. Hann býst við að eftir kvöldið verði samtals um það bil fimm hundruð manns í sóttvarnahúsum. 

Sjö flugvélar hafa lent í Keflavík í dag og kvöld, þar af tvær frá löndum þaðan sem farþegar þurfa skilyrðislaust að vera í sóttkví í sóttvarnarhúsi, Svíþjóð og Frakklandi. Í kvöld lendir þriðja vélin frá slíku hááhættusvæði, frá Póllandi. Reglurnar gilda þó ekki um þá sem hafa vottorð um að þeir séu bólusettir eða hafi fengið COVID-19. 

Hvernig fariði að því að opna nýtt og nýtt sóttvarnahús?

„Við höfum verið að ráða fólk undanfarna daga og vikur og það hefur gengið mjög vel. Hins vegar eru þetta allt tímabundnar ráðningar. Fólk er tilbúið að vinna með okkur og við erum gífurlega þakklát öllum þeim sem eru tilbúin að vera með í þessum slag okkar.“

Þegar Gylfi er spurður hvort hægt verði að halda endalaust áfram að fjölga sóttvarnahúsum, ef ferðamönnum fjölgar áfram í sumar, segir hann að samningur Sjúkratrygginga Íslands við Rauða krossinn um að starfrækja sóttvarnahús gildi út mánuðinn, svo þurfi annað hvort að framlengja samninginn og halda áfram eða leita nýrra leiða. 

Samkvæmt núgildandi reglugerð þurfa farþegar frá 17 löndum að vera í sóttkví á sóttkvíarhóteli milli fyrri og seinni sýnatökunnar. Farþegar frá 131 landi til viðbótar þurfa einnig að vera í sóttkví á sóttkvíarhóteli en geta sótt um undanþágu með tveggja daga fyrirvara. Eins og fyrr segir gilda reglurnar ekki um bólusetta farþega, þeir þurfa aðeins að fara í sýnatöku við komuna til landsins og vera í sóttkví þar til neikvæð niðurstaða fæst. 

Ný reglugerð tekur síðan gildi á þriðjudag en þá fer Pólland út af lista yfir þá farþega sem þurfa skilyrðislaust að vera á sóttkvíarhóteli. Pólverjar sem hingað koma geta þá sótt um undanþágu með tveggja daga fyrirvara. Þeir verða eftir sem áður að uppfylla ströng skilyrði um heimasóttkví.

Samkvæmt reglugerðinni verða farþegar frá 15 löndum að vera skilyrðislaust í sóttkví á sóttkvíarhóteli. Farþegar frá 163 löndum geta sótt um undanþágu með tveggja daga fyrirvara en þurfa annars að vera á sóttkvíarhóteli.