Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikið álag á landamærunum – fjölga starfsfólki

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
„Umfangið er gríðarlega mikið. Það koma upp undir þúsund farþegar á dag um flugvöllinn,“ segir Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í flugstöðvardeild Lögreglustjórans á Suðurnesjum. „Þessum farþegum þarf öllum að mæta og það þarf að skoða þau gögn sem þeir leggja fram; PCR-vottorð eða bóluefnavottorð eða staðfestingu á að viðkomandi hafi fengið COVID,“ bætir hann við. 

Margar vélar og talsverðar raðir

Alls lenda átta flugvélar í Keflavík í dag og kvöld, þar af þrjár frá löndum þar sem farþegar þurfa skilyrðislaust að vera í sóttkví í sóttvarnahúsi. Þetta eru vélar frá Stokkhólmi, París og Varsjá en sú síðastnefnda lendir í kringum miðnætti. Arngrímur segir það mikla mildi að flugin dreifist nokkuð jafnt yfir daginn: „Það kemur flug á morgnanna og svo í eftirmiðdaginn og fram á kvöld. Það hefur hjálpað til,“ segir hann, en að þó myndist talsverðar raðir. 

Stendur til að flytja eftirlitið og fjölga starfsfólki

„Við sjáum fram á betri daga á næstunni þegar við færum þessa aðstöðu til og það verður fjölgað starfsmönnum sem koma að þessari vottorðaskoðun. Það stendur til að færa hana í komusal í norðurbyggingu, þar verður fjölgað afgreiðsluborðum og bætt í sýnatöku,“ segir Arngrímur.

Lögreglan veit ekki hversu margir í hverri vél þurfa að fara í sóttvarnahús áður en vélarnar lenda. Arngrímur segir að farþegar frá ákveðnum ríkjum séu nær undantekningarlaust bólusettir, eins og frá Bandaríkjunum. „Við höfum sett upp módel-útrekningar í Excel þar sem við greinum hvern einasta dag og getum áætlað út frá þeim forsendum sem við gefum okkur, í dag eða næstu tvo til þrjá dagana, þann fjölda sem þarf að fara á sóttkvíarhótel.“

Í upphafi var óljóst um ábyrgð á framkvæmdinni, t.d. hver sæi um að raða í rútu og bæri ábyrgð á að það væri ekki of þröngt um fólk þar. Fólk kvartaði undan þrengslum. Er búið að fínpússa fyrirkomulagið?

„Já, þetta voru byrjunarörðugleikar í upphafi. Fólk er flokkað í komusalinn og rútubílstjórarnir passa að það verði ekki of þröngt í rútunum.“