Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Guðbjörg Oddný gefur kost a sér

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði, sækist eftir 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Prófkjörið stendur yfir í þrjá daga, 10.-12. júní.

í framboðstilkynningu segir Guðbjörg Oddný að hún vilji fara á þing fyrir ungt fjölskyldufólk. „Mikilvægt er að hugað sé vel að einstaklingunum, frelsi þeirra og frumkvæði. Ég tala fyrir því að umgjörðin í málefnum barna virki þeim til heilla. Ég brenn fyrir framþróun í menntamálum og nýsköpun í kennsluháttum. Einnig þarf að gera ungu fólki auðveldara að eignast sitt eigið húsnæði,“ segir Guðbjörg. Hún er gift Gísla Má Gíslasyni og eiga þau þrjú börn. 

Guðbjörg Oddný skipaði 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði í sveitarstjórnarkosningunum árið 2008 og varð þar fyrsti varabæjarfulltrúi flokksins. Hún hefur setið í fjölskylduráði, fræðsluráði og sem formaður menningar- og ferðamálanefndar. Guðbjörg er einnig fulltrúi bæjarins í stjórn Markaðsstofu Hafnarfjarðar.

Guðbjörg Oddný hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðustu 12 ár og hefur meðal annars setið í stjórn Stefnis, félags ungra Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði og stjórn Fram, Sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar, sem varaformaður. Hún situr núna í stjórn fulltrúaráðsins í Hafnarfirði og í framkvæmdastjórn Landssambands Sjálfstæðiskvenna.

 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV