Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Átök hafin í Afganistan eftir að vopnahlé rann út

16.05.2021 - 06:18
epaselect epa08170110 Afghan soldiers prepare to reach the scene of a plane crash near Ghazni, Afghanistan, 27 January 2020. According to reports a place crashed in Deh Yak district of Ghazni province where there is a strong Taliban presence.  EPA-EFE/SAYED MUSTAFA
Afganskir stjórnarhermenn. Mynd: EPA-EFE - EPA
Bardagar brutust út að nýju á milli talibana og stjórnarhers Afganistans í morgun, skömmu eftir að þriggja daga vopnahlé rann sitt skeið á enda. AFP-fréttastofan hefur eftir talsmanni afganska hersins að til átaka hafi komið í úthverfum Lashkar Gah, héraðshöfuðborgar Helmandhéraðs í sunnanverðu Afganistan í morgun.

Formaður héraðsstjórnarinnar í Helmand, Attaulla Afghan, staðfesti þetta og sagði tíðindamanni AFP að vopnahléið hefði verið rofið þegar talibanar réðust á eftirlitspósta afganska hersins í útjaðri borgarinnar í morgun.  Ekki hafa borist fréttir af mannfalli en bardagar stóðu enn þegar þessi frétt var skrifuð, samkvæmt AFP.

Afar róstusamt hefur verið í Helmandhéraði frá því að Bandaríkin hófu brottflutning herafla síns frá Afganistan 1. maí. Talibanar lýstu þó yfir þriggja daga vopnahléi á fimmtudag, til að gefa landsmönnum frið til að halda Eid al-Fitr hátíðina hátíðlega, en hún markar lok föstumánaðarins ramadan og er ein helsta trúarhátíð múslíma.