Play tilkynnti í dag að félagið hefði fengið flugrekstrarleyfi: „Þetta er gríðarlega stór og mikill áfangi og búið að vinna í þessu vel á annað ár. Þetta er auðvitað forsenda þess að við getum kallað okkur flugfélag, selt miða og hafið starfsemi,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play. „Það er mjög mikið regluverk í þessum bransa svo þetta er stór forsenda fyrir rekstrinum.“
Þrjár flugvélar í sumar
Fyrsta flugvél Play kemur til landsins í byrjun júní, sú næsta í byrjun júlí og sú þriðja fyrir miðjan júlí.
Birgir segir að félagið vinni nú í því að ráða starfsfólk: „Við erum að ráða talsvert af fólki, bæði á skrifstofu og áhafnir. Við erum að byggja á þeim grunni sem WOW-air var að nota, þetta eru samskonar vélar. Við höfum gott aðgengi að flottum hópi fólks en eðli málsins samkvæmt mun fjölga í hópnum á næstu vikum.“
Hann segist búast við að eftir eitt ár reki félagið sex flugvélar. „Öll nálgun okkar á þennan rekstur er varfærin. Við þurfum ekki að flýta okkur of hratt, ætlum að láta markaðinn segja til um það hversu stórt félagið verður. Það er ekkert keppikefli fyrir okkur að verða risastór.“
Hversu margir verða áfangastaðirnir?
„Það eru sjö áfangastaðir að fara í sölu núna, svo Bandaríkin á næsta ári. Þetta verður hæg uppbygging.“
Semja við Íslenska flugstéttarfélagið
Flugfélagið stefnir að því að semja við Íslenska flugstéttarfélagið, félag sem flugmenn WOW-air voru hluti af og hét þá Íslenska flugmannafélagið. Síðar gengu flugfreyjur einnig í félagið.
Þannig að það eru íslenskir kjarasamningar sem gilda?
„Íslenskir kjarasamningar, íslensk laun, allar reglur á íslenskum vinnumarkaði virtar,“ segir Birgir.
ASÍ hefur óskað eftir fundi
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir aðspurð að hún hafi óskað eftir fundi með forsvarsfólki félagsins og Samtökum atvinnulífsins, og að hún búist við fundi í næstu viku.