Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Skilgreina Bandaríkin og Tékkland sem fjandsamleg ríki

15.05.2021 - 04:08
epa09197114 Russian Prime Minister Mikhail Mishustin attends a meeting with the members of the government, via teleconference call, in Moscow, Russia, 13 April 2021.  EPA-EFE/DMITRY ASTAKHOV / SPUTNIK / GOVERNMENT PRESS SERVICE POOL / POOL MANDATORY CREDIT
Mikhail Misjustin, forsætisráðherra Rússlands. Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Rússnesk stjórnvöld skilgreina Bandaríkin og Tékkland sem „fjandsamleg ríki,“ samkvæmt stjórnartilskipun, undirritaðri af forsætisráðherranum Mikhail Misjustin. Löndin tvö hafa verið færð á lista yfir ríki sem hafa orðið uppvís að „fjandsamlegum aðgerðum“ gegn Rússlandi, rússneskum ríkisborgurum, fyrirtækjum eða félagasamtökum. Dimitri Peskov, upplýsingafulltrúi rússnesku ríkisstjórnarinnar, leggur áherslu á að Bandaríkin og Tékkland séu einu ríkin á listanum um þessar mundir.

Diplómatískar deilur

Tékkar unnu sér það til óhelgi á dögunum að saka rússnesku leyniþjónustuna um mannskætt skemmdarverk sem unnið var í Tékklandi fyrir nokkrum árum og reka átján rússneska diplómata úr landi fyrir vikið. Rússar brugðust við með því að reka tuttugu tékkneska diplómata frá Moskvu.

Nýtilkomin skilgreining Tékklands sem fjandsamlegs ríkis þýðir meðal annars að Tékkum er óheimilt að ráða fleiri en nítján rússneska starfsmenn að sendiráði sínu í Moskvu. Bandaríkin fá hins vegar ekki að ráða einn einasta Rússa til starfa í sínu sendiráði eftir að þeir voru settir á þennan stutta lista. Tékknesk stjórnvöld hafa þegar brugðist við tíðindunum og segja ákvörðun Rússa einungis til þess fallna að auka enn á spennuna í samskiptum ríkjanna.

Spenna í samskiptum stórveldanna

Mikil og vaxandi spenna hefur líka verið í samskiptum Rússlands og Bandaríkjanna frá embættistöku Joes Bidens í ársbyrjun, meðal annars vegna framgöngu Rússa í Úkraínu og ásakana Bandaríkjamanna um rússneskar tölvuárásir og afskipti af kosningum í Bandaríkjunum.

Utanríkisráðherrar stórveldanna, þeir Antony Blinken og Sergei Lavrov, eru væntanlegir hingað til lands í næstu viku, þar sem þeir munu sitja fund Norðurskautsráðsins. Ráðgert er að þeir eigi fund saman og fari yfir hvort tveggja samstarf ríkjanna og ágreiningsefni. Þá þykir líklegra en ekki að utanríkisráðherrarnir leggi drög að mögulegum leiðtogafundi þeirra Pútíns og Bidens.