Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Krefjast þess að viðskiptabann verði sett á Ísrael

Mynd: RÚV / RÚV
Fjöldi fólks tók þátt í mótmælum á Austurvelli í dag til stuðnings Palestínu. Yfirskrift mótmælanna var Stöðvum blóðbaðið. Krafa fundarins var að íslensk stjórnvöld setji viðskiptabann á Ísrael.

Í fundarboði var þess krafist að slíkt viðskiptabann gildi uns þjóðernishreinsunum í Sheikh Jarrah-hverfinu í austurhluta Jerúsalem verði hætt.

Jafnframt er krafan að árásum á Gaza-svæðinu linni og að Ísrealar láti af landráni og skili landi Palestínumanna til baka. Í dag er sjötti dagur mikilla eldflaugaárása milli Ísraela og Palestínumanna.

Falasteen Abu Libdeh og Rósa Björk Brynjólfsdóttir tóku til máls en fundarstjóri var Guðfinnur Sveinsson. Þau Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar Guðmundsson fluttu tónlist. 

Það er mat lögreglu að um fimmhundruð manns hafi komið saman á Austurvelli í dag. Að sögn lögreglu var vel gætt að sóttvörnum og fjarlægðartakmörkunum. Þær Falasteen Abu Libdeh og Rósa Björk Brynjólfsdóttir tóku til máls en fundarstjóri var Guðfinnur Sveinsson. 

Þorgerður María Þorbjarnardóttir var meðal fundargesta og sagði í samtali við fréttastofu að hræðilegt væri að nýverið hefði hópur Palestínumanna verið sendur til Grikklands frá Íslandi. Með þátttöku sinni í mótmælunum vill hún sýna samstöðu. 

„Og svo sér maður þessa atburði í Palestínu og ég vil bara að það verði  viðskiptabann við Ísrael meðan þeir láta svona.“ 

Inga Harðardóttir kvaðst sorgmædd yfir því sem væri að eiga sér stað . Brýnt væri að senda skilaboð til alþjóðasamfélagsins.  

Finnst þér íslensk stjórnvöld geta gert meira? „Erfitt að segja, já það mættu kannski vera skýrari skilaboð.“ Brynhildur Rut Þorbjarnardóttir tók í sama streng.  

„Við getum sett viðskiptabann á Ísrael og sýnt þannig samstöðu við Palestínu.
Að viðurkenna ríkið var náttúrulega fyrsta skrefið en mér finnst við geta gert meira og ég vil bara sýna samstöðu með Palestínu.“ 

Boðað var til mótmæla af sama toga víðsvegar um heim í dag. Meðal annars söfnuðust þúsundir saman í Lundúnum og Madríd.