Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Katniss er næsta Ronja ræningjadóttir

Mynd: Bíóást / RÚV

Katniss er næsta Ronja ræningjadóttir

15.05.2021 - 12:17

Höfundar

Bergrún Íris Sævarsdóttir hafði bitið það sig að vilja alls ekki sjá Hungurleikana eða lesa bækurnar. Einn daginn sat hún föst í flugvél og lét sig hafa það að horfa á fyrstu myndina og mótþróinn gufaði upp. Hungurleikarnir eru í Bíóást á RÚV í kvöld.

Hungurleikarnir er ævintýraleg spennumynd sem gerist í nálægri framtið. Norður-Ameríka er rústir einar vegna þurrka, hungursneyðar og stríðsátaka. Ríkið Panem er komið í stað Bandaríkjanna þar sem höfuðborgin Kapítól er umkringd tólf umdæmum. Á hverju ári eru haldnir Hungurleikar, þar sem tvö ungmenni úr hverju umdæmi eru valin til að taka þátt í bardaga upp á líf og dauða í beinni sjónvarpsútsendingu. Aðalhetjan Katniss Everdeen, sem Jennifer Lawrence leikur, tekur málin í eigin hendur þegar yngri systir hennar er valin til að keppa í leikunum. 

Bergrún Íris Sævarsdóttir, rithöfundur, hafði í fyrstu lítinn áhuga á kvikmyndunum eða bókunum sem þær byggjast á, eftir Suzanne Collins. „Það gerist stundum hjá mér ef eitthvað verður ofboðslega vinsælt og allir eru að gera eitthvað, allir eru að lesa sömu bókina eða horfa á sömu bíómyndirnar, þá bara hleyp ég í hina áttina. Það er svona mótþrói sem vaknar.“ En þegar hún þurfti að drepa tímann, innilokuð í flugvél, lét hún sig hafa það að horfa á fyrstu myndina á agnarlitlum skjá. 

 

„Ég heillaðist svona rosalega af þessum söguheimi hennar Suzanne Collins og af persónunum. Ég sökk einhvern veginn inn í þetta. Þrátt fyrir að vera að horfa í fáránlega lélegum gæðum á pínulitlum skjá í flugvélarsæti, þá náði myndin mér alveg,“ segir Bergrún. „Kannski tengi ég svona mikið við Katniss Everdeen, aðalpersónuna, einmitt út af þessum mótþróa. Af því hún er í stanslausum mótþróa. Hún ætlar ekki að láta segja sér hvernig hún á að sitja eða standa og er bara þessi sterka stelpa og kvenhetja sem ég þrái í öllu afþreyingarefni síðan ég sá Ronju ræningjadóttur á sviði. Síðan ég las bækurnar hennar Astrid Lindgren þá er ég alltaf að bíða eftir næstu Ronju og Katniss einhvern veginn var það fyrir mig.“

Hungurleikarnir er í Bíóást, þar sem sýndar eru vel valdar kvikmyndir sem valdið hafa straumhvörfum, klukkan 22:35 í kvöld.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Skilur vel að myndin hafi ekki farið vel í femínista

Kvikmyndir

Skítug borgin skákar senuþjófnum Daniel Day-Lewis

Kvikmyndir

„Get ímyndað mér að karlinn hafi snúið sér í gröfinni“

Kvikmyndir

Eðalskíthælamynd með dýrbrjáluðum Daniel Day-Lewis