Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Höfuðstöðin í Ártúnsbrekku

Mynd: Listasafn Reykjavíkur / Listasafn Reykjavíkur

Höfuðstöðin í Ártúnsbrekku

15.05.2021 - 09:26

Höfundar

Myndlistarkonan Hrafnhildur Arnardóttir - Shoplifter - vinnur nú að því að koma upp sýningu sinni Chromo Sapiens í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku en ætlunin er að sýningin verði þar til frambúðar.

Chromo Sapiens var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2019 og er ein sú allra vinsælasta sem sett hefur verið upp í sögu Listasafns Reykjavíkur. Hún verður nú hluti af nýju menningarhúsi sem opnað verður í Ártúnsbrekkunni í sumar og hefur hlotið heitið Höfuðstöðin.

„Þetta gengur rosa vel,“ sagði Hrafnhildur í Ártúnsbrekkunni á dögunum. „Það er svo mikil gleði sem fylgir því að finna áfangastað fyrir þetta verk til frambúðar og á Íslandi. Það var draumur minn að vera ekki að fara á flandur með þetta út um allan heiminn. Það var búið að bjóða mér að vera með þetta hér og þar, en ég bara er svo mikill Íslendingur í mér, og mér fannst verkið bara eiga heima hér, þetta er íslenskt verk, Ham er með hljóðmyndina. Svo finn ég þetta jarðhýsi hérna sem kartöflugeymslurnar gömlu eru og Elliðaárdalurinn sem ég elska, og sama innanmál og í Feneyjum. Og bogaþak, ég hugsa ekki mikið inn í kassann, braggaformið er náttúrlega bara dásamlegt. Og verkið passar æðislega hérna inn.“

Menning og náttúra

Hrafnhildur lætur sig dreyma um að nýja menningarhúsið verði áningarstaður og samverustaður þar sem fólk getur hist, notið menningar og þess að vera úti í náttúrunni í miðri Reykjavík. Hún segist hafa haft mikla ánægju af því að vera í verkinu Chromo Sapiens aftur og aftur og dvelja í því. „Maður setur kannski ekki upp sýningu til frambúðar nema maður treysti henni til þess að taka á móti fólki svolítið lengi. Mig langar að halda áfram með þá hugmynd sem Kristinn Brynjólfsson, sem gerði upp þessar gömlu kartöflugeymslur, að hér verði listir og menning á boðstólnum. Þetta er svo stórkostlegur íverustaður, dalurinn, öll þessi útivist, gönguhópar og annað. Og ég veit einhvern veginn að ef mig langar að vera hérna lon og don, að þá er ekkert ólíklegt að flestir, að minnsta kosti þeir sem ég þekki og þeir sem ég þekki ekki, hafi líka áhuga á að hanga hér.“

Ein vinsælasta sýning Listasafns Reykjavíkur

Chromo Sapiens er innsetning sem frumsýnd var á Feneyjatvíæringnum árið 2019. Verkið er þakið miklu magni af einkennisefniviði Hrafnhildar, gervihári. Litir, hljóð og aðlaðandi áferð leiða gesti í gegnum þrjú ólík rými, sem umlykja þá í myndrænum og hljóðrænum samruna. Chromo Sapiens er ein vinsælasta sýningin sem sett hefur verið upp í Listasafni Reykjavíkur. „Ég held að Reykjavíkurborg og Listasafn Reykjavíkur hafi ekki verið neitt sérstaklega óánægt með aðsóknina sem ég held að hafi slegið öll met og það þurfti að hlaupa upp til handa og fóta til að taka á móti öllum þessum gestum.“

Draumabraggi

Kartöflugeymslurnar samanstanda af sjö bröggum og Hrafnhildur mun hreiðra um sig með verk sitt Chromo Sapiens í tveimur þeirra. „Annar bragginn sem ég er með hefur þessa fallegu glugga í suður og sólpall og ég veit ekki hvað og hvað, draumabraggi. Maður þarf ekkert endilega að koma aftur og aftur inn í verkið en það er svona þessi ára sem fylgir verkinu sem er mjög jákvæð. Og það virðist einhvern veginn lyfta andanum svolítið, fólk upplifir mikinn létti í leiðindalífinu sem maður er stundum ekkert ánægður með, eða hvað?“ Í bröggunum í Ártúnsbrekkunni eru pokar fullir af litríku hári en uppsetning á verkinu Chromo Sapiens er nú þegar hafin. „Ég er búin að fá mitt teymi til mín til Íslands, það er saman sett af fólki sem býr víðs vegar um heiminn en er orðið sérfræðingar í að hengja upp verkin mín, gerði það í Listasafni Reykjavíkur og líka í Feneyjum. Þannig að það þarf sérfræðinga til, þetta eru svona Shoplifter-sérfræðingar.“

Hárbær í Árbæ

Hrafnhildur Arnardóttir hefur vakið heimsathygli fyrir verk sín. Hún hefur búið í New York í tuttugu og fimm ár en hefur dvalið á Íslandi að undanförnu út af heimsfaraldrinum. Hún vinnur að undirbúningi nýja menningarhússins í samvinnu við Kristin Brynjólfsson, sem á enn meirihlutann í eigninni, og sömuleiðis við Reykjavíkurborg. „Sú sem stofnaði þetta með mér, Lilja Baldursdóttir, er búin að vinna með mér sem kreatívur framleiðandi í fimm ár, þannig að við erum að gera þetta saman, og erum að stefna að því að reyna að fá meiri menningu hérna upp í þessi rými sem eru ekki okkar. Til dæmis stendur til að gera veitinga- og tónleikastað hérna í kjallaranum. Og ég hugsa að hér verði smátt og smátt rosa spennandi að koma, þetta er svona áningarstaður, eins og Lilja kallar það, hárbær í Árbæ. Og vonandi verður hérna leikhús, og svo verslanir og hönnunarstaðir líka.“

Stefnt er að því að opna nýja menningarhúsið í Ártúnsbrekkunni þann 16. júní næstkomandi en húsið hefur eins og áður segir hlotið heitið Höfuðstöðin. „Við Lilja ákváðum að vera ekkert að spá í að hafa svona enskt heiti á þessu, þetta verður bara að taka sama pakkann og Eyjafjallajökull, það verður bara ógeðslega erfitt að segja þetta, og það er allt í lagi.“ 

Rætt var við Hrafnhildi Arnardóttur í Víðsjá.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Hár er hápólitískt“

Tónlist

Hinn litrófsborni hamur Shoplifter í Feneyjum

Myndlist

Þekur vöruhús með gervihári á Feneyjatvíæringi