Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ullarþversögn: Skortur en stór hluti verðlaus

14.05.2021 - 08:07
Mynd með færslu
 Mynd: - - Hönnunarsafn Íslands
Á meðan íslenskur lopi nýtur fádæma vinsælda og framleiðsla á handprjónabandi til útflutnings hefur stóraukist  er annars flokks ull af tvílitu nær verðlaus. Sauðfjárbændur vona að markaður fyrir ullina fari að glæðast. 

 

Verðið hrundi í faraldrinum

Eftir veturinn eru kindur rúnar, fyrir ullina borgar Ullarvinnslan Ístex, á bilinu 0-60 krónur á kíló. Svo bætist við ríkisstuðningur. Í fyrrahaust gerði áætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ráð fyrir að bændur fengju á bilinu 183 til 569 krónur fyrir kílóið af vetrarull sem er verðminni en haustullin. Lambsull og góð ull af hvítu, svörtu og mórauðu er nýtt til að framleiða handprjónaband í ullarvinnslu Ístex í Mosfellsbæ, Verðið á lopanum hækkaði fyrir nokkrum árum og hefur haldið verðgildi sínu. Öðru máli gegnir um lakari ull og ull af tvílitu sem erfiðara er að vinna hreina liti úr, sú ull er send úr landi.   „Þar hrundi verðið, verðið var lágt en svo bara stoppuðu viðskipti algerlega á tímabili út af COVID-19. Verksmiðjur í Bretlandi stoppuðu alveg eða drógu mjög úr framleiðslu og í fyrrasumar sáum við fréttir af því að bændur í Bretlandi voru farnir að brenna ull,“ segir Gunnar Þórarinsson, sauðfjárbóndi og stjórnarformaður Ístex. Íslenska ullin er mikið nýtt í gólfteppaframleiðslu. Hótel kaupa mikið af þessum teppum en ferðaþjónustan var ekki beisin í fyrra. 

130 milljóna tap

Síðastliðin tvö ár hefur Ístex, sem er að mestu í eigu bænda, tapað yfir 130 milljónum, iðnaðarbandið sem notað var til að framleiða túristavarning seldist afar lítið í faraldrinum, salan minnkaði strax eftir fall WOW-air. Gunnar segir auknar vinsældir handprjónabandsins hafa glætt reksturinn og vonar að ferðaþjónustan taki við sér. Þróunarvinna síðustu ára miðar að því að skapa meiri verðmæti úr lakari ullinni, hún er meðal annars nýtt inn í sængur og kodda. Gunnar segir markmiðið að fá betra verð og að það myndi þá skila sér til bænda.  Það komi þó líklega til með að taka tíma að hífa upp verðið. „Það hefur safnast svo mikið upp af ull um allan heim, út af faraldrinum.“

Tvílitt fé lifir góðu lífi

 Þó ullin af tvílitu hafi alltaf verið verðminni fjölgar tvílitum ám og magn ullar í þessum flokki hefur aukist. Bændur virðast því ekki láta ullarverðið stýra ræktuninni og botnótt, blesótt og krúnuleistótt fé lifir enn góðu lífi. „Þetta er eiginlega eina ullin sem við fáum meira magn af nú þegar fé er að fækka,“ segir Gunnar. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV