Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Störfum rignir inn

Mynd: Félagsmálaráðuneytið / Félagsmálaráðuneytið
Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að störfum rigni inn til stofnunarinnar vegna átaksins Hefjum störf. Tæplega 1.700 manns hafa verið ráðnir frá því að það hófst. Nú eru um 6.600 störf í boði.

Átakið nær til fyrirtækja, félagasamtaka, stofnana og sveitarfélaga. Ráðningar eru bundnar við atvinnuleitendur sem hafa verið án vinnu í að minnsta kosti 12 mánuði. Það er meginreglan.

Lítil og meðalstór fyrirtæki geta nýtt sér þessa leið. Stuðningur með hverjum sem er ráðinn nemur um 473 þúsund krónum á mánuði í allt að sex mánuði. Að auki leggur ríkið til 12,5% framlag í lífeyrissjóð. Upphæðin er sú sama og atvinnulausir fá greitt þegar þeir eru á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Þá geta  vinnuveitendur sótt um ráðningarstyrki sem hafa verið við lýði í mörg ár. Um þá geta fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum sótt.

Mikil bjartsýni

Undanfarna daga og vikur hefur störfum í boði fjölgað ört, jafnvel um 100 á dag. Störfum fjölgar og ásóknin í þau er að aukast.

„Það er óhætt að segja það. Það gætir mikillar bjartsýni finnst mér og störfunum rignir inn hjá okkur. Atvinnuleitendur er duglegir við að skoða störfin. Þeir geta sótt um sjálfir á Mínum síðum á vef Vinnumálastofnunar. Þannig að það er mjög mikið að gerast þessa dagana,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Mun slá á atvinnuleysið

Það er á brattann að sækja. Átakið, sem er tímabundið og gildir til ársloka, gerir ráð fyrir að styrkir verði veittir vegna sjö þúsund starfa. Almennt atvinnuleysi minnkaði um eitt prósentustig í síðasta mánuði og mældist 10,4%. Unnur vonast til að fjölgun starfa muni slá á atvinnuleysið á sumarmánuðum.

„Síðan er það reynsla okkar að allt upp í 75% þeirra sem nýta svona úrræði koma ekki aftur á atvinnuleysisskrá eftir sex mánuði. Annað hvort fá þeir framhaldsráðningu í sama starf eða  þá að þeir finna sér annað starf. Þannig að ég bind miklar vonir við að þetta muni jafnvel líka slá á atvinnuleysi til framtíðar.“