Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sjálfboðasamtök saka Lyfjastofnun um mannréttindabrot

14.05.2021 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Heilsíðuauglýsingu, sem birtist í Morgunblaðinu í gær, er einnig að finna á vefsíðunni Kovid.is, með K-i. Þar er stefna stjórnvalda gagnrýnd og Lyfjastofnun sökuð um mannréttindabrot. Landlæknisembættið telur þó ekki sérstakt tilefni til að bregðast við síðunni og efni hennar. Fjölmiðlanefnd hafa borist tvær ábendingar vegna auglýsingarinnar í Morgunblaðinu og forstjóri Lyfjastofnunar lítur hana alvarlegum augum.

Kovid.is og Covid.is

Vefsíðunni Kovid.is með K-i, svipar svolítið til opinberrar upplýsingasíðu stjórnvalda, covid.is, ekki útlitslega, en lénið er mjög áþekkt. Á síðunni er því haldið fram að stjórnvöld hafi sniðgengið lyfið Ivermectin sem geti bundið endi á Covid-faraldurinn fyrir fullt og allt, það verki gegn öllum afbrigðum COVID-19 og allar rannsóknir á því hafi reynst jákvæðar. Lyfjastofnun er gagnrýnd harðlega og því haldið fram að stofnunin hafi gert alvarleg mistök og framið mannréttindabrot með því að hafna lyfinu.

Í umfjöllun á vef Lyfjastofnunar kemur fram að lyfið ætti ekki að nota gegn COVID-19 þar sem niðurstaða um mat á ávinningi og áhættu liggi ekki fyrir. Nauðsynlegt sé að fá niðurstöður úr klínískum rannsóknum áður en hægt sé að fullyrða um öryggi lyfsins og verkun þess sem meðferð við eða forvörn gegn sjúkdómnum. 

Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot/kovid.is

Í bland við þetta er að finna á síðunni þekkt slagorð á borð við, „við erum öll almannavarnir“, og upptökur af upplýsingafundum. Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður Landlæknis, segir embættið ekki geta brugðist við, fólk hafi sitt málfrelsi. „Á okkar síðu eru auglýsingar birtar með yfirveguðum og hófstilltum hætti, við reynum að höfða til skynsemi fólks og það höfum við verið að gera frá upphafi faraldursins. Við teljum að almenningur sé almennt orðinn nokkuð sjóaður í því að sigta í gegnum upplýsingar sem eru birtar með vafasömum hætti, vafasamar fullyrðingar og án mikils rökstuðnings. Þetta er ekki eitthvað sem við höfum beint áhyggjur af eða höfum í huga að taka á með beinum hætti,“ segir Kjartan. 

Sama auglýsing og í Morgunblaðinu

Á kovid.is er að finna sömu auglýsingu og birtist nafnlaust á heilsíðu í Morgunblaðinu í gær. Morgunblaðið hefur beðist afsökunar á þessu og greint frá því að Vilborg Björk Hjaltested, sem titlar sig lífeindafræðing, hafi keypt auglýsinguna í gegnum fyrirtæki sitt Bjuti.is. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að af auglýsingunni hafi mátt ráða að hún væri frá Lyfjastofnun komin. „Það er náttúrulega bara mjög alvarlegt þegar svona framsetning býður upp á það að fólk viti ekki hvaðan upplýsingarnar koma.“

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot/kovid.is

Ekki náðist í auglýsandann, Vilborgu Hjaltested, við vinnslu fréttarinnar en líklega er hún meðal þeirra sem halda úti vefsíðunni. Á síðunni segir að að baki henni standi sjálfboðasamtök lækna, fagfólks, atvinnurekenda og annarra sem berjist fyrir þekktum, öruggum, vísindalega sönnuðum lausnum sem fjölmiðlar og stjórnvöld hafi ekkert fjallað um. 

Ábendingar borist fjölmiðlanefnd

Fjölmiðlanefnd hafa borist tvær ábendingar vegna nafnlausu auglýsingarinnar  í Morgunblaðinu í gær. Ábendingarnar lúta að því að auglýsingin sé nafnlaus, framsetningin villandi og ýjað hafi verið að því að stjórnvöld standi að henni. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, segir nefndina ekki byrjaða að fara yfir ábendingarnar eða skoða hvaða ákvæði laganna gætu átt við. Í lögunum felst meðal annars að fjölmiðlar beri efnislega ábyrgð á því sem kemur fram í auglýsingum, komi ekki fram hver hafi keypt auglýsinguna. Elfa Ýr segir að ábendingarnar verði kynntar á fundi nefndarinnar og í framhaldinu tekin ákvörðun um hvort farið verði í frumkvæðismál á grundvelli þeirra.