Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sigríður sækist eftir öðru sæti í Reykjavík

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Sigríður Á. Andersen, þingmaður og fyrrverandi dómsmálaráðherra, býður sig fram 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir Alþingiskosningarnar í haust.

Þetta kemur fram í aðsendri grein hennar í Morgunblaðinu í dag. Prófkjörið verður háð dagana 4. og 5. júní næstkomandi. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra takast á um efsta sætið í prófkjörinu. Brynjar Níelsson, þingmaður sækist eftir öðru sæti. 

Guðlaugur Þór og Sigríður skipuðu oddvitasætin á listum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í þingkosningunum 2017.

Í greininni stiklar Sigríður á stóru um verk sín sem þingmaður og ráðherra og hvað hún hyggst fyrir á komandi árum. Sigríður er nú 1. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður.