Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ríkjum fjölgar sem teljast hááhættusvæði

14.05.2021 - 21:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Þrjátíu og eitt land eða svæði bætist á listann yfir hááhættusvæði vegna COVID-19 á þriðjudaginn.

Farþegar frá Spáni og Póllandi geta sótt um undanþágu

Farþegar frá 164 ríkjum eða svæðum þurfa þá að dvelja í sóttvarnahúsi við komuna til landsins, en geta sótt um undanþágu. Farþegum frá 15 ríkjum verður gert að dvelja í sóttvarnahúsi án þess að geta sótt um undanþágu.

Þetta kemur fram í nýrri auglýsingu heilbrigðisráðherra sem tekur gildi 18. maí. Samkvæmt henni geta farþegar frá Póllandi og meginlandi Spánar sótt um undanþágu frá dvöl í sóttvarnahúsi, sem þeir höfðu ekki kost á áður. Farþegar frá Svíþjóð verða áfram að dvelja í sóttvarnahúsi og geta ekki sótt um undanþágu. 

Krafa um dvöl í sóttvarnahúsi á ekki við um þá sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrra smit, við komuna til landsins. Þeir þurfa að fara í eina sýnatöku við komuna til landsins, og vera í sóttkví þar til neikvæð niðurstaða liggur fyrir.

Viðmiðin þau sömu og áður

Viðmiðin verða áfram þau sömu en vegna þróunar faraldursins breytast listarnir yfir þau lönd og svæði sem teljast til hááhættusvæða. Farþegar sem koma frá landi eða svæði þar sem nýgengi smita er 700 eða meira þurfa skilyrðislaust að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi. Þetta á einnig við ef nýgengi smita er á bilinu 500–699 og hlutfall jákvæðra sýna er 5 prósent eða hærra, eða ef nýgengi er yfir 500 en fullnægjandi upplýsingar um hlutfall jákvæðra sýna liggur ekki fyrir. 

Farþegar sem koma frá landi þar sem nýgengi smita er 500–699 og hlutfall jákvæðra sýna er undir 5 prósent þurfa að dvelja í sóttvarnahúsi en eiga þess kost að sækja um undanþágu frá því skilyrði. Sama gildir um þá sem koma þaðan sem nýgengi smita er undir 500 en hlutfall jákvæðra sýna er 5 prósent eða hærra eða upplýsingar um hlutfall jákvæðra sýna liggur ekki fyrir. 

Farþegar frá eftirfarandi ríkjum geta ekki sótt um undanþágu:

1. Andorra.
2. Argentína.
3. Barein.
4. Frakkland.
5. Grænhöfðaeyjar.
6. Holland.
7. Króatía.
8. Kýpur.
9. Litháen.
10. Seychelles-eyjar.
11. Serbía.
12. Svíþjóð.
13. Tyrkland.
14. Ungverjaland.
15. Úrúgvæ.