Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ráðuneytið skoðar lán á bóluefni frá Norðurlöndunum

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd
Heilbrigðisráðuneytið hefur til skoðunar hvort mögulegt sé að fá bóluefni að láni annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu sem send var fyrir viku. „Engin niðurstaða liggur fyrir eins og stendur,“ segir í svari ráðuneytisins.

Ísland hefur þegar fengið 16 þúsund skammta af bóluefni AstraZeneca að láni frá Noregi. Norska ríkisstjórnin tilkynnti í vikunni að bóluefnið yrði tekið út úr bólusetningaráætlun stjórnvalda.

Á vef mbl.is er haft eftir Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni að ekki sé sérlega brýn þörf á fleiri skömmtum af bóluefni AstraZeneca.

Sérfræðinganefnd á vegum norsku ríkisstjórnarinnar og lýðheilsustofnun landsins hafa mælt með að bóluefnið frá Janssen verði heldur ekki notað.  Endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir.

Danir voru fyrstir til að hætta með AstraZeneca og Janssen. Heilbrigðisráðherra landsins ætlar engu að síður að leggja fram frumvarp þar sem kveðið verður á um fólk geti sjálft tekið þá ákvörðun að láta bólusetja sig með þessum bóluefnum.

Norðmenn hafa verið í svipuðum hugleiðingum.  Sumir vilja að það verði háð ströngum skilyrðum en aðrir telja að almenningur eigi að fá að njóta vafans.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV