Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Norðmenn taka AstraZeneca endanlega úr umferð

14.05.2021 - 00:29
epa09079043 A health worker holds a vial of COVID-19 vaccine developed by AstraZeneca at a vaccination center of the Vietnam Vaccine Joint Stock Company (VNVC), in Hanoi, Vietnam 17 March 2021. Major European countries have temporarily suspended the use of the AstraZeneca jab following reports of side effects such as blood clots.  EPA-EFE/LUONG THAI LINH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Norska ríkisstjórnin ákvað í gær að hætta skuli alfarið notkun á bóluefni AstraZeneca gegn COVID-19 í Noregi og hefur það verið fjarlægt úr bólusetningaráætlun heilbrigðisyfirvalda. Erna Solberg, forsætisráðherra, tilkynnti þetta síðdegis á miðvikudag. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um framtíð Janssen-bóluefnisins í Noregi, en notkun þess verður hætt í bili.

Fólk getur þó óskað eftir Janssen-bóluefni, kjósi það svo, og einnig er fyrirhugað að eiga það á lager og grípa til þess ef smitum skyldi fara að fjölga á ný og þörf talin á að herða enn á bólusetningu.

Hundruð þúsunda skammta á lager

Norsk heilbrigðisyfirvöld hættu að nota bóluefni AstraZeneca 11. mars, eftir að fréttir bárust af mögulegum orsakatengslum milli notkunar þess og afar sjaldgæfra en alvarlegra blóðtappa. Nefnd sem fór yfir kosti og galla notkunar AstraZeneca- og Janssen-bóluefnanna mælti með því að bæði efnin yrðu tekin úr umferð fyrir fullt og allt.

Verið er að kanna hvað gera skal við þau hundruð þúsunda skammta af Astra Zeneca sem til eru í Noregi og verður þeim að líkindum annað hvort skilað aftur til Evrópusambandsins til endurdreifingar, eða þeim komið til alþjóðlega COVAX-bóluefnasamstarfsins.