Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Neikvætt tal um konur í öllum karlaklefum í fótbolta

14.05.2021 - 21:12
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Neikvætt tal um konur viðgengst í öllum karlaklefum knattspyrnumanna. Þetta segir formaður Leikmannasamtaka Íslands. Leikmenn séu hræddir við að mótmæla slíku tali af ótta við að litið verði á það sem veikleika og að það rýri möguleika þeirra á að komast í liðið. 

Fjölmargar konur hafa lýst slæmri reynslu sinni af samskiptum við karlmenn í nýju metoo-bylgjunni sem hófst fyrir nokkrum dögum og þónokkrir karlmenn hafa stigið fram og stutt konur. Garðar Gunnlaugsson knattspyrnumaður greindi frá því í Lestinni á Rás eitt að umræðan í karlaklefanum hallaði oft á konur. 

„Ég held að það kannist allir við þetta. Ég  held að þú værir í mikilli blekkingu ef þú myndir segja að kannist ekki við það sem Garðar var að tala um. Ég hef sjálfur verið  með Garðari í klefa. Ég held að þetta eigi ekki við bara suma fótboltaklefa. Ég held að þetta eigi við um alla fótboltaklefa,“ segir Arnar Sveinn Geirsson, knattspyrnumaður og formaður Leikmannafélags Íslands. 

„Það er náttúrulega leitt að heyra af þessu og að þeir telji þetta sé algengt. En karlaklefarnir eru líklega eins og flestir búningsklefar á landinu, það er mjög misjafnt hvernig viðhorfin eru þar og hvernig menningin er þar,“ segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands.

Geturðu lýst aðeins hvernig þessi kúltúr er?

„Ja, þetta er svona kannski, að vissu leyti er þetta það að vera ekki meðvitaður um það sem þú ert að segja. Og svo oft hvernig umræðan oft æxlast, menn láta eitthvað út úr sér. Menn telja sig vera í öruggu rými að þeir geti í rauninni sagt eitthvað sem þeir myndu ekki segja annars staðar. Þó svo að það sé í gamansömum tón þá er það ekki eitthvað sem á að viðgangast. Þetta er auðvitað mjög náið, klefinn. Þið eruð þarna saman alla daga,“ segir Arnar. 

 

Mynd: Þór Ægisson / RÚV

„Ég tel að þetta sé vandamál kannski hreyfingarinnar og samfélagsins í heild. Þetta er ekki einkamál knattspyrnuhreyfingarinnar,“ segir Klara.

Hvað eru menn að segja?

„Það er allur gangur á því. Það eru einhverjir brandarar sem eru misheppnaðir. Þetta er kannski bara ákveðin orðræða sem klárlega er ekki til þess fallin til þess að auka virðingu gagnvart kvenfólki, klárlega ekki, á tímum. Það er alls ekki þar með sagt að það séu allir uppvísir að slíkum ummælum. En það er ákveðin meðvirkni inni í klefa þegar ákveðin umræða fer af stað, þá er ákveðin meðvirkni, hún er kannski ekki stöðvuð. Þú ert hræddur við að sýna einhvern veikleika. Hingað til hefur það bara verið þannig hjá karlmönnum að það að sýna tilfinningar er veikleiki. Það að sýna að þú sért ekki til í eitthvað, það er veikleiki. Þar af leiðandi finnst þér kannski að þú sért að minnka möguleika þína á að vera í liðinu með því að sýna veikleika,“ segir Arnar.