Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Landspítali: Alvarlegar ávirðingar öllum þungbærar

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
„Áríðandi er að málefnalega sé unnið með kvartanir og ábendingar sem berast, svo unnt sé að bæta brotalamir, séu þær fyrir hendi. Það er það vinnulag sem Landspítali viðhefur í öllum slíkum málum og stendur sú vinna yfir á spítalanum,“ segir í yfirlýsingu sem Landspítalinn sendi frá sér í dag til að bregðast við fréttaflutningi fréttastofu síðustu daga um ábendingar um slæman aðbúnað á öryggis- og réttargeðdeildum spítalans.

Ábendingarnar koma frá núverandi og fyrrverandi starfsmönnum. Einn sagði stjórnendur spítalans hafa brugðist þeim sem kvörtuðu undan aðbúnaði á deildunum og annar sagðist ekki óska óvinum sínum að dvelja á geðdeild. Í greinargerð Geðhjálpar segir að sjúklingar séu beittir þvingunum og refsingum með ýmsum aðferðum sem brjóti í bága við 28. grein lögræðislaga um bann við þvingaðri meðferð. Þá séu þeir læstir á gangavist, nauðungarsprautaðir og eftir atvikum læstir inni á öryggisherbergi svo dögum skiptir, ef þeir gerast sekir um að brjóta reglur á deildunum.

Landlæknir hefur nú þegar haft samband við viðmælendur fréttastofu frá því í gær og boðið þeim á sinn fund í næstu viku. 

Í yfirlýsingu Landspítalans segir að sjúklingahópurinn á þessum deildum sé afar viðkvæmur og meðferð þeirra löng, flókin og umfangsmikil. Á deildunum starfi fagaðilar og sérhæfðir starfsmenn sem allir hafi velferð sjúklinga að leiðarljósi. Alvarlegar ávirðingar í garð starfseminnar séu öllum þungbærar, sjúklingum og fjölskyldum þeirra, sem og starfsmönnum. 

Þá er farið yfir það hvernig gæðaeftirliti og eftirfylgd mála innan spítalans sé háttað, og eftirliti utanaðkomandi aðila: „Annars vegar OPACT eftirlits (Optional Protocol to the Convention against Torture) og hins vegar CPT nefndarinnar (European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment).“

Einnig kemur fram að umboðsmaður Alþingis hafi heimsótt geðþjónustuna í október og að niðurstöður eftirlitsskýrslu hafi almennt verið jákvæðar, en ábendingar hafi verið gerðar til heilbrigðisráðuneytisins um að skoða þyrfti lagalegt umhverfi starfseminnar: „Og fór sú vinna af stað í framhaldinu.“ Þá hafi heldur ekki komið fram neinar vísbendingar um illa meðferð sjúklinga í heimsókn CPT-nefndarinnar. 

„Almennt er það stefna Landspítala að draga skuli úr þvingandi meðferð í þjónustunni og vinnur nú sérstakur hópur að tillögum að leiðum til að fylgjast með umfangi þvingandi íhlutunar og aðferðum til að draga úr slíku í þjónustunni. Frumvarp um breytingar á lögum um réttindi sjúklinga mun styðja vel við þá vinnu, verði það samþykkt á Alþingi.“