Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lands- og Íslandsbanki ósammála um vaxtahækkanir

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV
Mikil og þrálát verðbólga ásamt að dregið hefur úr óvissu um komandi efnahagsbata auka líkur á að peningastefnunefnd Seðlabankans hækki stýrivexti bankans um 0,25 prósent. Þetta er mat greiningar Íslandsbanka en næsta vaxtaákvörðun verður 19. maí næstkomandi. Á hinn bóginn telur Hagsjá Landsbankans að vextir verði óbreyttir áfram, fram í ágúst.

Landsbankinn segir þó styttast í næstu vaxtahækkun en stýrivextir hafa verið óbreyttir í 0,75% frá því í nóvember. Sömuleiðis segir að verðbólgu- og þjóðhagsspá sem birtist í Peningamálum samhliða vaxtaákvörðuninni hafi mikil áhrif á vaxtaákvörðunina. 

Ýmis úrræði hafa verið framlengd sem létta eiga fyrirtækjum og heimilum í vanda róðurinn, uns birtir til í efnahagsmálum. Haldist sá stuðningur telur greining Íslandsbanka ekki hættu á ferðum fyrir komandi efnahagsbata.

Verðbólga ekki hærri í átta ár

Bönkunum ber saman um að verðbólguþróunin hafi verið umtalsvert óhagstæðari en spáð hafði verið, yfir efri vikmörkum allt þetta ár. Spá Seðlabankans í febrúar um verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi var 3,9% en raunin varð 4,2%.

Verðbólgan í apríl mældist 4,6%, sú mesta í átta ár. Þar vó veruleg hækkun á húsnæðisverði þyngst en nú er talið að verðbólga verði þrálát út árið og jafnvel nærri efri þolmörkum verðbólgumarkmiðsins. Verðbólga án húsnæðisliðs hefur einnig verið mikil. 

Stöðugt verðlag er skilgreint sem 2,5% verðbólga á 12 mánaða tímabili en breytist hún um 1,5% í hvora átt skal Seðlabanki gera ríkisstjórn grein fyrir ástæðum þess og hvernig bæta skuli úr.

Í greiningu Landsbankans segir að líklegra sé að peningastefnunefndin muni freista þess að beita fyrst öðrum úrræðum og stýritækjum áður en til vaxtahækkana komi. Hækkun stýrivaxta nú sé ótímabær því hún geti dregið úr efnahagsbatanum. 

Íslandsbanki segir þó að Seðlabanka beri að stíga varlega til jarðar svo ekki slokkni í glæðum efnahagsbatans, líkt og það er orðað í greiningunni. Ekki þykir útilokað að vextir verði áfram óbreyttir og gerist það megi búast við að Seðlabankinn bregðist við verðbólgunni.

Möguleiki á takmörkunum fasteignalána

Hækki Seðlabankinn vexti gerir greining Íslandsbanka því skóna að í kjölfarið verði þeir óbreyttir fram á síðasta ársfjórðung, en verði þá rólega hækkaðir.

Þá fara meginvextir Seðlabankans á sjö daga bundnum innlánum í 1% líkt og var frá maí og fram í nóvember á síðasta ári. Samhliða vaxtaákvörðun telur Íslandsbanki að reglur um takmarkanir á fasteignalán verði hertar.

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans getur lækkað lánshlutfall af markaðsverði fasteigna, sem nú nemur almennt 85% að hámarki. Eins getur nefndin bætt við takmörkunum á lánsfjárhæð eða greiðslubyrði miðað við tekjur.

Mat greiningar Íslandsbanka er að það skjóti skökku við eigi að beita þeim verkfærum til að draga úr verðbólgu enda sé tilgangur þeirra að tryggja fjármálastöðugleika.

Heppilegra væri að nýta þau til kælingar fasteignamarkaðsins með samspili við hærra vaxtastig í ljósi aðstæðna. 

Dregur úr hættu á bakslagi vegna faraldursins

Eins er talið að hættan á verulegu bakslagi í faraldrinum minnki hér jafnt og þétt enda bólusetning vel á veg komin og áætlanir um tilslakanir, jafnt hér sem í nágrannalöndum. 

Í Hagsjá Landsbankans segir að óvissa um þróun heimsfaraldursins sé enn töluverð og atvinnuleysi nálægt methæðum. Á allra næstu vikum ráðist hvenær böndum verði komið á útbreiðslu hans.

Nái ferðaþjónustan viðspyrnu í sumar telur Landsbankinn að efnahagsbati hefjist af krafti í kjölfarið. Bankinn telur því líklegt að nefndin bíði með hækkun stýrivaxta fram í ágúst þegar vænta megi að töluvert hafi dregið úr óvissu vegna faraldursins.