Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fimm vikna bið eftir þyrluflugi yfir gosstöðvarnar

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Magnússon
Allt að fimm vikna bið er eftir þyrluflugi yfir gosstöðvarnar við Fagradalsfjall. Í samtali við fréttastofu sögðu tvö íslensk þyrluflugfélög eftirspurnina aldrei hafa verið meiri en nú. Hjá öðru fyrirtækinu eru um 2.000 bókanir á biðlista.

Íslendingar voru í upphafi mikill meirihluti farþega en erlendum ferðamönnum sem vilja fljúga yfir eldgosið fer hratt fjölgandi.

Þessi mikla eftirspurn skýrist að hluta af stuttri vegalengd að gosinu frá Reykjavíkurflugvelli, en flugið tekur um 50 mínútur og því er talsvert ódýrara að fljúga þangað í samanburði við fyrri eldgos. Einnig vekur strókavirkni eldgossins áhuga, sem gerir það einstaklega tilkomumikið áhorfs.

Talsmenn fyrirtækja sem bjóða upp á þyrluflug yfir gosstöðvarnar segja til skoðunar að fjölga í þyrluflotanum og ráða til sín fleira starfsfólk.

Höfundur er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, í starfsnámi á fréttastofu RÚV.