Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Enn mikil eldhætta - ný slökkviskjóla á leiðinni

14.05.2021 - 12:05
Mynd með færslu
Mynd tekin á æfingu Landhelgisgæslunnar. Mynd: Landhelgisgæslan
Hættustig almannavarna er enn í gildi á Suður- og Vesturlandi vegna hættu á gróðureldum og óvissustig á Norðvesturlandi. Regnið sem féll í gær breytti litlu. Ný slökkviskjóla til að kljást við gróðurelda úr lofti er væntanleg til landsins í dag eða á morgun.

Almannavarnir, slökkvilið og aðrir viðbragðsaðilar funda daglega til þess að meta stöðuna. Eitthvað rigndi í gær, mest á Suðurlandi og Suðurnesjum en eitthvað á Vesturlandi. Heiðar Örn Jónsson varaslökkviliðsstjóri hjá slökkviliði Borgarbyggðar segir það hafa dugað skammt og jafnvel hafi rignt minna en vonast var til. Við það hafi einungis myndast yfirborðsraki sem gufar fljótt upp.

„Svo erum við að horfa fram á það að það er lítil sem engin úrkoma alla vega fram yfir Hvítasunnuhelgi miðað við spár.“

Hvað þarf að rigna mikið til að eitthvað breytist?

„Það þyrfti að vera svona tveggja daga góð úrkoma með ákveðnu millibili til þess að við séum að sjá einhvern almennilegan raka í jarðvegi.“ 

Bann við opnum eldi er enn í gildi á Suður- og Vesturlandi og fólk beðið um að sýna aðgát á Norðvesturlandi.

„Við biðjum fólk um að vera á varðbergi. Fara varlega og fylgjast með hvort öðru og minna hvort annað á,“ segir Heiðar.

Slökkviskjóla kemur frá Kanada í dag eða á morgun

Ný slökkviskjóla í stað þeirrar sem eyðilagðist í kjölfar gróðurelda í Heiðmörk í síðustu viku er væntanleg til landsins í dag eða á morgun, samkvæmt Landhelgisgæslunni. Skjólan er hengd neðan í þyrlu, getur borið um tvö þúsund lítra af vatni og nýtist til þess að slökkva gróðurelda. Hún var keypt frá Kanada, en ekkert varð úr því að leigja skjólu frá Svíþjóð. 

Hægt er að nálgast upplýsingar um viðbúnað og viðbragð við gróðureldum á gróðureldar.is