Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Dæmdur fyrir að aka á gangandi vegfaranda

Mynd með færslu
 Mynd:
Landsréttur staðfesti í dag eins mánaðar skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir karlmanni á sjötugsaldri sem keyrði á gangandi vegfaranda. Bílstjórinn þótti hafa valdið líkamsmeiðingum með gáleysi sem leitt hafi til þess að hann ók á gangandi manninn. Landsréttur sneri hins vegar við ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness um fjögurra milljóna króna miskabætur. Maðurinn sem varð fyrir bílnum var ellefu daga í öndunarvél og er að mati læknis eins og barn í vitrænum þroska eftir slysið.

Bílstjórinn beygði af Bæjarhálsi í Reykjavík yfir á Bitruháls og ók á gangandi vegfaranda á gangbraut. Maðurinn þótti hafa sýnt aðgæsluleysi með því að gæta ekki sérstaklega að gangandi vegfarendum. Bílstjórinn beygði á grænu ljósi en gangandi eru í forgangi á gangbrautinni. Dimmt var úti, rigningarúði og slæmt skyggni, að því er fram kemur í dóminum.

Bæði Héraðsdómur Reykjaness og Landsréttur sakfelldu bílstjórann. Dómstólarnir komust hins vegar að öndverðri niðurstöðu um miskabætur. Héraðsdómur dæmdi ökumanninn til að greiða gangandi vegfarandanum fjórar milljónir í miskabætur og sagði um þann síðarnefnda: „Hann var ellefu daga í öndunarvél og mánuðum saman á dagdeild á Grensási. Hann glímir við vitræna skerðingu og er að mati læknisins nú eins og barn í vitrænum þroska. Möguleikar hans á að vinna fyrir sér eru mjög takmarkaðir. Ljóst er að atvikið hefur í för með sér miklar og vafalaust þungbærar breytingar í lífi brotaþola.“

Landsréttur taldi hins vegar að ekki lægju fyrir nægjanlegar upplýsingar um slysið til að meta gáleysi ökumannsins stórfellt. Þannig lægi ekkert fyrir um að bílnum hefði verið ekið hraðar en aðstæður leyfðu og ekki væri annað að sjá en maðurinn hefði andlega og líkamlega fær um að stýra bílnum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV