Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Austlægar áttir með skúrum eða slydduéljum

14.05.2021 - 06:45
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Austlægar áttir leika um landið og gengur á með skúrum eða slydduéljum, síst norðantil á landinu. Ástæðan er víðáttumikið hæðasvæði sem liggur enn yfir Grænlandi og Íslandi en dýpkandi lægð sem er langt suður í hafi þokast austur.

Lægðin verður komin að Írlandi á morgun og því verður vindur norðaustlægari hér á landi. Áfram má búast við dálitlum skúrum eða éljum víða um land, en bjartviðri sunnan- og vestanlands.

Svalt verður áfram á landinu en í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að hiti geti farið nærri 10 stigum syðra, þegar best lætur.

Þar segir einnig að engar veðurbreytingar séu sjáanlegar á sunnudag, nema þá að mögulega bæti í úrkomu eystra.

Gróður verður áfram mjög þurr sunnan- og vestanlands um helgina, þrátt fyrir skúraleiðingar. Fólk er því hvatt til að fara varlega með eld. 

Hæg austlæg eða breytileg átt, 5 til 8 metrar á sekúndu verður við gosstöðvarnar í dag. Gasmengun berst því einkum til vesturs og ætti ekki að valda miklum vandræðum í byggð.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV