
Alexandra verður forseti borgarstjórnar
Pawel Bartozek, sem hefur verið forseti borgarstjórnar frá júní 2019 tekur við formennsku í skipulags- og samgönguráði en fyrrverandi formaður ráðsins, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, sagði skilið við stjórnmálin í byrjun þessa mánaðar vegna veikinda. Það sem eftir lifir kjörtímabilsins tekur Alexandra sæti Sigurlaugar sem borgarfulltrúi og frá og með þriðjudegi verður hún forseti borgarstjórnar.
Vill ýta umræðunni í málefnalegri átt
Í pistli á Facebook-síðu sinni segist Alexandra meðvituð um traustið og ábyrgðina sem í stöðunni felst og heitir því að gera sitt besta. Þá segir hún að umræðan geti oft verið harkaleg í borgarstjórn og hún muni leggja kapp á að umræðan verði málefnaleg og að gagnrýni og harka snúi að málefnum, hugmyndafræði og eftir atvikum flokkum, frekar en að einstaklingum og persónum þeirra. Sigurborg, samflokkskona hennar, hætti vegna veikinda og álags. Í viðtali við Fréttablaðið sagði hún frá því að hún hefði verið undir miklu álagi í borgarstjórn og mátt þola áreitni vegna starfs síns. Aðstæður í borgarstjórn væru sérstaklega erfiðar fyrir konur og að það hefði mun oftar verið gert lítið úr henni og málflutningi hennar en málflutningi karlmanna.