Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ætla að kaupa þrjár nýjar slökkviskjólur

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra vonar að hægt verði að ganga frá kaupum á fleiri slökkviskjólum fyrir Landhelgisgæsluna á næstunni til að efla viðbúnað við gróðureldum.

Eina slökkviskjólan sem Landhelgisgæslan átti eyðilagðist í gróðureldunum í Heiðmörk í síðustu viku. Von er á nýrri skjólu frá Kanada í dag eða á morgun. Skjólan er hengd neðan í þyrlu, getur borið um tvö þúsund lítra af vatni og nýtist til þess að slökkva gróðurelda.

Stjórnvöld standa nú í viðræðum um kaup á fleiri skjólum.

„Við þurfum helst að eiga þrjár skjólur á allar þyrlur Landhelgisgæslunnar,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Þetta er í vinnslu. Við höfum átt í samtölum við Norðurlöndin og almannavarnadeildir víða til þess að reyna að tryggja þetta. Við fáum allavega eina frá Kanada núna og svo var samþykkt að halda áfram samtali til að tryggja okkur fleiri,“ segir Áslaug.