
Þurrkar og kuldi há sprettu verulega
Hefur áhrif á búskapinn
Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri hjá Landssamtökum sauðfjárbænda og bóndi á Syðstu-Fossum í Andakíl í Borgarfirði, er með 120 vetrarfóðraðar ær, tíðarfarið undanfarið hefur haft áhrif á búskapinn. „Það hefur verið bærilegt varðandi það að geta sett út lambfé og slíkt en þurrkarnir og kuldinn er farinn að há sprettu verulega. Það þarf að gefa fénu vel með beitinni.“
Hann segir að flestir bændur eigi enn nóg af góðu heyi handa ánum. „Já, almennt er það nú að bændur gera ráð fyrir að þurfa að gefa út maímánuð, það hefur kannski ekki verið raunin síðustu árin en sagan kennir okkur það að það getur þurft.“
Næturfrost tafið fyrir útiræktun
Bændum hefur í gegnum tíðina oft gengið erfiðlega að fá áheyrn veðurguða. Unnsteinn segir að nú láti rigningin bíða eftir sér, svo láti hún líklegast sjá sig í júní þegar bændur þurfi þurrkinn. Gunnar Þorgeirsson, garðyrkjubóndi og formaður Bændasamtakanna, segir næturfrostið hafa tafið fyrir útiræktun og ekki hægt að setja niður kartöflur nema undir hlífðarplasti. Bændur séu tvístígandi og bíði þess að jarðvegurinn hitni almennilega. Sáning á korni fer líka hægt af stað.
Rigningin myndi breyta öllu
Túnin eru heldur gul núna, bara grashýjungur og lítil framför að sögn Unnsteins en það gæti breyst. Góð úrkoma myndi koma sprettunni af stað og leysa upp áburðinn. „En ef við fáum rigningu, góða rigningu á næstu dögum mun það breyta öllu og það er, akkúrat núna, svona smá úði hér í Borgarfirði allavega,“ segir Unnsteinn.