Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sendi 12 ára barni verðskrá fyrir kynferðislegar myndir

Mynd: RÚV / RÚV
Tólf ára barn fékk senda verðskrá frá ókunnugum fullorðnum íslenskum karlmanni sem vildi kaupa af því kynferðislegar myndir. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur verið tilkynnt um málið. Nokkur mál eru til rannsóknar hjá lögreglu þar sem börn á unglingsaldri hafa fengið greiðslu fyrir kynferðislegar myndir.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur frá því í desember fengið tilkynningar um að börn á unglingsaldri hafi fengið greiðslu fyrir kynferðislegar myndir af sér. Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að málin hafi uppgötvast þegar foreldrar tóku eftir óeðlilegum greiðslum í greiðsluappi barna sinna. Tugir slíkra mála hafa komið upp víðs vegar um landið. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið menn sem grunaðir eru um að greiða börnum fyrir kynferðislegar myndir og nokkur mál eru til rannsóknar. 

Í dag fékk fréttastofa RÚV upplýsingar um að tólf ára barn hefði fengið sendan verðlista frá ókunnugum fullorðnum íslenskum karlmanni sem vildi kaupa af því kynferðislegar myndir. Barnið lét vita af þessu og hefur lögreglunni verið tilkynnt um málið. Ævar Pálmi segir að þetta sé yngsta barnið sem lögregla viti til að reynt hafi verið að krefja um kynferðislegar myndir.

Smygla sér inn í hópa barna

Í tölvupósti sem sendur var foreldrum barna á miðstigi og efsta stigi í skóla barnsins kemur fram að oft sé mjög þrýst á börn um að skrá sig á samfélagsmiðlana Snapchat, Instagram, TikTok og Omegle. Þar hafa börnin samskipti sín í milli að miklu leyti. Það komi fyrir að börn samþykki vinabeiðnir eða fylgjendaóskir frá einhverjum sem þau þekkja ekki. En þó svo að þau geri það ekki geti þessir aðilar nálgast börnin í hópum sem þau eru í á samfélagsmiðlunum eða sent þeim skilaboð. 

Arnar Ævarsson framkvæmdastjóri Heimilis og skóla:
„Við höfum heyrt af mörgum málum þar sem er verið að tæla börn og reyna að lokka þau inn í svona ferli, aðstæður. Bæði í gegnum tölvuleiki, samfélagsmiðlana. Það eru fjölmörg dæmi um slíkt. Þetta er náttúrulega bara óhugnanlegt og hryllilegt. Það er mikilvægt að fræða og bregðast við þessu ekki endilega að hræða heldur bara að börnin séu klár í að ræða við foreldrana um þessi mál og foreldrarnir að bregðast við með uppbyggilegum og jákvæðum hætti.“

Arnar hvetur foreldra til þess að skoða samfélagsmiðlana með barninu en börn undir þrettán ára mega ekki skrá sig þar inn. inn á samfélagsmiðla. Á vefsíðunni Hlustum.is og Saft.issækja fróðleik um þessi mál.
 

 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV