Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hvenær fær bólusett Maríanna vernd og vottorð?

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/GRAFÍK
Um helmingur landsmanna er kominn með að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. Öll bóluefnin virðast forða fólki frá því að veikjast alvarlega eða deyja úr COVID-19 en það er ekki hægt að treysta á þau fyrr en að nokkrum vikum liðnum. 

Helmingur kominn með aðra eða báðar

Símarnir pípa: Boð í bólusetningu. Um helmingur landsmanna yfir 16 ára aldri er búinn að fá annað hvort eina sprautu eða tvær og í hverri viku bætast þúsundir og stundum tugþúsundir í hópinn. Bólusetningarsjálfum rignir inn á samfélagsmiðla og hjá mörgum þeirra sem eftir sitja er farið að örla á bólusetningaröfund. En hvaða þýðingu hafa þessar sprautur? Hvaða vernd veita þær?

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/GRAFÍK
Staða bólusetninga 12. maí 2021. Heimild: Bóluefni.is

Engin vernd fyrst tvær vikurnar

Tökum dæmi. Maríanna er 62 ára og fékk fyrri skammtinn af bóluefni AstraZeneca fyrir tveimur vikum. Hún er spennt fyrir því að geta umgengist vini og fjölskyldu óþvingað án þess að vera alltaf að pæla í þessari veiru. Svo langar hana til útlanda. 

Rannsóknir hafa sýnt að fyrri skammturinn veitir mikla vernd en það gerist ekki strax og fyrst í dag, 13. maí, er bóluefnið farið að veita Maríönnu einhverja vernd. „Við byrjum að fá einhverja vernd eftir 14 daga en þegar menn hafa skoðað núna í fjöldabólusettum þá er hún samt ekki meira en 60% eftir fjórar vikur og 70% eftir sex vikur. Það gildir um öll bóluefni svona meira og minna,“ segir Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Ingileif Jónsdóttir, prófessor.

Um miðjan júní getur hin uppskáldaða Maríanna verið nokkuð örugg með sig. Verndin ætti að vera komin upp í um 70% en hvað þýðir það? „Það þýðir sem sagt að sjötíu prósent okkar eru vernduð en hin ekki. Það er ekki allir sem eru bólusettir verndaðir gegn sjúkdómi,“ útskýrir Ingileif. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/GRAFÍK

Þetta eru tölur úr rannsóknum sem gerðar voru eftir fjöldabólusetningar. Af hundrað bólusettum sem voru útsett fyrir veirunni veiktust 30. Talið er að bólusetning minnki líkurnar á því að fólk smitist af veirunni um helming, fólk getur því smitast en aðalávinningurinn felst í því að ef bólusett fólk veikist, þá veikist það almennt minna og smitar færri. „Fyrir öll bóluefnin fjögur gildir það að vernd gegn alvarlegum sjúkdómi, sjúkrahússinnlögn og dauða er nánast 100%.“

Frelsi til ferðalaga mismikið

Til að teljast fullbólusett þarf Maríanna að fá seinni skammtinn, það ætti að gerast í byrjun ágúst. „Seinni skammturinn er fyrst og fremst mikilvægur til þess að byggja upp ónæmisminnið og tryggja að við höfum vernd til lengri tíma.“

Viku eftir seinni skammt telst Maríanna fullbólusett og getur sótt um bólusetningarvottorð. Segjum að maðurinn hennar, Jón, hafi fengið sprautu frá Pfizer í lok apríl og dóttir þeirra, Alexandra, fyrstu og einu sprautuna sem þarf af bóluefni Janssen á sama tíma.  Alexandra og Jón geta þá sótt um vottorð strax í maí eða júní. Frelsi fjölskyldumeðlima til ferðalaga kann því að vera mismikið í sumar.