Hækkað í vindvélinni á seinni æfingu Daða

Seinni æfing Daða Freys í Ahoy í Rotterdam
 Mynd: EBU

Hækkað í vindvélinni á seinni æfingu Daða

13.05.2021 - 13:51

Höfundar

Önnur sviðsæfing Daða og Gagnamagnsins fór fram í dag í Ahoy-höllinni í Rotterdam. Lagið heldur áfram að færast ofar á lista veðbanka.

Hvert atriði, af þeim 39, sem keppa í Eurovision fær tvær æfingar á sviðinu fyrir generalprufu. Æfing Daða og Gagnamagnsins í dag gekk mjög vel. Hópurinn er orðinn vanur sviðinu og líður vel á því. Ekki urðu miklar breytingar á atriðinu á milli æfinga, nema hvað að svo virðist sem styrkurinn á vindvélinni hafi verið hækkaður um nokkur stig.

„Það gekk mjög vel á æfingunni, við erum bara tilbúin í þetta,“ segir Daði. „Vindvélin var pottþétt sterkari núna en áður. Nú var hún eins og hún á að vera.“

Lagið fór einnig upp á við í veðbönkum að æfingu lokinni, úr sjötta sæti í það fjórða og er nú komið upp fyrir Ítalíu.

Hópurinn  var klæddur keppnisbúningunum, sem eru með bróderuðum andlitsmyndum eftir Lovísu Tómasdóttur klæðskera. Seinni æfingin var tekin upp og kann að vera notuð í útsendingunni ef eitthvað kemur upp á. 

Seinni æfing Daða Freys og Gagnamagnsins í Ahoy höllinni í Rotterdam. Eurovision 2021
 Mynd: EBU
Daði og Gagnamagnið, öryggið uppmálað á stóra sviðinu í Rotterdam.

Viðbrögð blaðamanna og vefmiðla sem sérhæfa sig í Eurovision eru almennt mjög góð. Álitsgjafar ESC-Extra voru allir sammála um að atriðið eigi létt með að komast í aðalkeppnina, þar sem það verður líklegt til að ná langt. Á Wiwibloggs segir að seinni æfingin hafi verið jafn fínstillt og hökralaus og sú fyrri og hópurinn hafi aldrei verið jafn öruggur á sviði.

Seinni æfing Daða Freys og Gagnamagnsins í Ahoy höllinni í Rotterdam. Eurovision 2021
 Mynd: EBU

Önnur lönd sem tóku upp æfingu á sviðinu í Ahoy-höllinni í dag voru Malta, Grikkland, Austurríki og Pólland. Auk þess æfðu í fyrsta skipti á sviðinu þær þjóðir sem taka ekki þátt í undanúrslitum heldur fara beint í úrslitakeppnina, Þýskaland, Holland, Ítalía, Frakkland og Bretland.

Daði og Gagnamagnið stíga á svið í seinni undanúrslitum Eurovision, áttunda lagið í röðinni, fimmtudaginn 20. maí.

Myndir teknar 13. maí
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Myndir teknar 13. maí
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Myndir teknar 13. maí
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Gagnamagnið undirbýr sig fyrir aðra sviðsæfingu.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Erlenda pressan spennt fyrir Daða og Gagnamagninu

Popptónlist

10 years er lag vikunnar á BBC

Popptónlist

Daði klífur upp veðbankann eftir fyrstu æfingu

Tónlist

Daði og Gagnamagnið halda til Rotterdam