Fyrrverandi starfsmenn ÖRG: „Við vorum bara skammaðar“

Þrír fyrrverandi starfsmenn á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans lýsa stöðunni á deildunum
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Stjórnendur Landspítalans brugðust þeim sem kvörtuðu undan stöðunni á öryggis- og réttargeðdeild spítalans. Þetta segir fyrrverandi starfsmaður á deildunum. Annar fyrrverandi starfsmaður segist ekki óska óvinum sínum að þurfa að dvelja á deildunum. Allt hafi gengið út á hindranir á deildunum, en ekki að gefa fólki tækifæri.

Embætti landlæknis hefur til athugunar alvarlegar ábendingar um slæman aðbúnað á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans. Þar er meðal annars lýst ofbeldi, lyfjaþvingunum, ógnarstjórnun og miklum samskiptavanda. Ábendingarnar koma frá núverandi og fyrrverandi starfsmönnum.

Þrír þessara fyrrverandi starfsmanna gagnrýna harðlega stjórnun á deildunum og féllust á að veita fréttastofu viðtal um málið. Það eru þær Gyða Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur á öryggisgeðdeild frá 2004 til 2017 og fyrrverandi aðstoðardeildarstjóri þar, Elsa Bára Traustadóttir sálfræðingur á deildunum frá 2013 til 2020 og Sigrún Huld Þorgrímsdóttir geðhjúkrunarfræðingur á réttargeðdeildinni 2015 til 2017.

„Sjúklingar sögðu: „Ég vildi að ég væri í fangelsi frekar en hérna.“ Allavega á öryggisgeðdeildinni,“ segir Gyða.

„Ég tók eftir því að þarna gekk allt út á hindranir. Ekki neitt út á að gefa fólki tækifæri,“ segir Sigrún Huld.

Niðurlægt og skammað

Þær segja að þetta ástand hafi bitnað á starfsfólkinu.

„Það var hrætt og óöruggt, fólk með margra ára eða jafnvel áratuga reynslu af vinnu á geðsviði, með einmitt okkar veikustu sjúklinga, sem treysti sér ekki til að taka einfaldar ákvarðanir af því að það var hrætt um að verða niðurlægt og skammað,“ segir Elsa Bára.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Gyða er ekki í vafa um hvað var það alvarlegasta sem hún varð vitni að á deildunum.

„Líkamlegt og andlegt ofbeldi gagnvart sjúklingum og starfsfólki.“

Sástu það oft?

„Já maður varð vitni að ýmsu, og svo fékk maður þetta frá starfsfólkinu sem var á vakt í það og það skiptið. Það var engum reglum fylgt eða viðmiðum sem spítalinn eða siðareglur hjúkrunarfræðinga leggja til.“

Gyða segir að dæmi um ofbeldið séu refsingar, frelsissviptingar, óþarfa nauðungarsprautanir, líkamsárásir, hótanir og hvers kyns andlegt ofbeldi.

„Öllu stungið undir stól“

Var það ykkar upplifun að stærstur hluti starfsmanna væri á því að staðan á deildunum væri ekki í lagi?

„Já. Og er ennþá. Engin spurning,“ segja þær.

„Ég er í góðu sambandi við mjög marga af mínum fyrrverandi vinnufélögum og þeir eru alveg á sama máli. Ef það er eitthvað þá versnar það,“ segir Gyða.

Hafið þið og aðrir starfsmenn á einhverjum tímapunkti kvartað yfir ástandinu á öryggis- og réttargeðdeildum við yfirmenn Landspítalans?

„Þetta er bara fyndið,“ segir Gyða. „Já mörgum sinnum. Öllu stungið undir stól. Maður hefur talað við þáverandi og núverandi framkvæmdastjóra geðsviðs, forstjóra, hjúkrunarforstjóra. Stéttarfélögin.“

Og ekki bara þið heldur aðrir starfsmenn líka?

„Já já já já. Margir.“

Yfir langt tímabil?

„Já.“

Alls konar skýringar

Þær eru sammála um að umkvörtunum hafi verið tekið fálega.

„Þeir nota í rauninni allar hefðbundnar réttlætingar ofbeldismanna,“ segir Elsa Bára. „Það er gert lítið úr atvikinu, þolandanum er kennt um, það eru ýmsar siðferðilegar réttlætingar fyrir hegðuninni, ábyrgðinni dreift. Það eru í rauninni notaðar alls konar skýringar til þess að normalísera og þagga niður í fólki sem gerir þessar athugasemdir. Og mér fannst stjórnendur spítalans algjörlega bregðast mér þegar ég geri þessar athugasemdir, þegar ég með góðum vilja sendi tölvupóst á framkvæmdastjóra geðsviðsins og bið hana um að kanna líðan starfsfólks, gera bara úttekt á líðan starfsfólksins á deildinni og bregðast við með viðeigandi hætti. Að það verði settur inn einhver stuðningur til þess að laga þetta andrúmsloft,“ segir Elsa Bára.

„Við vorum bara skammaðar, við vorum tvær sem sendum þennan tölvupóst. Við vorum skammaðar fyrir að hafa gert þetta.“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Elsa Bára segir að yfirmenn spítalans hafi vissulega brugðist við kvörtununum, og meðal annars fengið markþjálfa til þess að halda fundi með starfsmönnum, auk þess sem utanaðkomandi ráðgjafi hafi verið kallaður til. Þau viðbrögð hafi hins vegar hvergi nærri dugað til að laga ástandið.

„Öll vinnubrögð í kringum þetta eru svo galin. Virkilega ófagleg. Og svo er okkur í rauninni bara bolað úr starfi. Og þegar ég byrjaði að vinna á þessari deild, þá var einn af mínum sjúklingum að fá fimmta sálfræðinginn sinn, frá þeim tíma sem réttargeðdeildin var stofnuð. Fimmta sálfræðinginn! Við erum að tala um veikasta fólkið sem þarf samfellda þjónustu í lengri tíma, og tekur langan tíma að vinna upp,“ segir Elsa Bára.

Ógnanir og kúgunaraðferðir

Samkvæmt svörum frá bæði Önnu Sigrúnu Baldursdóttur, aðstoðarmanni forstjóra Landspítalans, og Nönnu Briem, forstöðumanni geðþjónustu Landspítalans, mun spítalinn ekki tjá sig um málið á meðan það er til meðferðar hjá embætti Landlæknis. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur Nanna tekið viðtöl við flesta ef ekki alla starfsmenn á deildunum, síðan embætti landlæknis hóf sína athugun á málinu.

Sigrún Huld segir að ráðast þurfi í miklar breytingar á öryggis- og réttargeðdeildunum.

„Það þarf að koma þar inn með styðjandi og persónumiðaða hugmyndafræði fyrir sjúklingana, sem eru mjög veikir og þurfa mjög mikinn stuðning. En ekki ógnanir og kúgunaraðferðir,“ segir hún.

Þetta ástand heilt yfir, mynduð þið segja að það hafi bitnað á og bitni á sjúklingum?

„Já algjörlega. Algjörlega. Það er engin spurning.“

Og er þetta þá, eins og staðan er, ekki staður fyrir geðsjúka?

„Ég myndi ekki vilja eiga neinn mér nákominn þarna inni,“ segir Sigrún Huld. „Ekki óvini mína einu sinni.“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
13.05.2021 - 19:10