Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Flugskýlið of lítið fyrir flugvélina og þyrlurnar

13.05.2021 - 08:46
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Flugskýli Landhelgisgæslunnar rúmar ekki allar þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar eftir að þriðja þyrlan bættist í flugflota gæslunnar í síðustu viku. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Þar er haft eftir Ásgeiri Erlendssyni, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, að geyma þurfi eina þyrlu eða flugvél gæslunnar utandyra vegna plássleysis.

Ásgeir segir þetta vera ófremdarástand sem brýnt sé að leysa sem fyrst. Hann segir að aðstaðan uppfylli ekki kröfur til brunavarna og að almenn aðstaða starfsfólks sé ófullnægjandi og fjarri því að uppfylla kröfur nútímans. Flugskýli Landhelgisgæslunnar var reist árið 1943. 

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að dómsmálaráðuneytið hafi sent Reykjavíkurborg bréf vegna málsins árið 2018. Þar hafi verið óskað eftir tillögum um staðsetningu þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar á flugvallarsvæðinu til framtíðar. Ekki hafi hins vegar borist svar við því.
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV