Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bjartsýnn á afléttingu sóttvarnaráðstafana í Skagafirði

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri sveitarfélagsins Skagafjarðar segir að ef ekki kemur upp smit utan sóttkvíar á næstu dögum verði stefnt að afléttingum sóttvarnarráðstafana um helgina.  

Í síðustu viku tóku að greinast kórónuveirusmit í sveitarfélaginu sem varð til þess að ákveðið var að fresta gildistöku tilslakana sem taka átti gildi 10. maí í Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi til mánudagsins 17. maí. 

Nú er sveitarstjórinn bjartsýnn á að það geti gengið eftir. Grunn- og framhaldsskólanum var lokað og leikskólanum einnig nema fyrir forgangshópa. Þá eru sundlaugar og íþróttamannvirki lokuð og æfingum barna aflýst fram yfir næstu helgi.  

„Við teljum okkur vera búin að ná utan um þessi smit sem komið hafa upp. Öll smit undanfarið eru hjá fólki í sóttkví. Ef þannig heldur áfram næstu daga förum við að skoða afléttingar um helgina sem tækju gildi í næstu viku.“

Ekkert smit megi koma upp utan sóttkvíar, fram á laugardag eða sunnudag. Það sé forgangsmál. Þegar mest var segir Sigfús að um 400 manns hafi verið í sóttkví. Miklar sýnatökur séu á hverjum degi, til dæmis hafi um 150 til 160 sýni tekin. Á morgun sé einnig stór dagur.

„Það skiptir miklu máli að einstaklingar og fyrirtæki voru tilbúin að herða skarplega á, svo við næðum þessu í gegn á stuttum tíma.“ Allt hafi gengið vel og því ríki bjartsýni á að komast í gegnum ástandið. 

Þrjú af þeim fimm kórónuveirusmitum sem greindust í gær eiga uppruna á Sauðárkróki. Öll voru í sóttkví. Nú eru þrettán í einangrun en undanfarna viku hafa fjórtán greinst með COVID-19 á svæðinu. 

Sigfús segir ekki vita til þess að nokkur hafi orðið mjög veikur. Fólk sé með hefðbundin einkenni. Hann er sjálfur í sóttkví eftir að hafa átt samskipti við fólk sem hafði smitað. Hann býst við niðurstöðu sýnatöku í kvöld.  

Nú eru þrettán í einangrun en undanfarna viku hafa fjórtán greinst með COVID-19 á svæðinu. Lögregla nyrðra vill brýna fyrir fólki að fara að reglum um sóttkví, til að mynda sé ekki heimilt að fara í bíltúra. 

Sigfús telur fyrst og fremst verið að árétta það sjálfsagða, fólk hafi ekki verið að brjóta sóttvarnareglur. „Fólk gæti varúðar og fylgi settum reglum, þannig að okkur takist að komast hratt og vel þetta.“