Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Auðkona keypti nafnlausa auglýsingu um bólusetningu

13.05.2021 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Nafnlaus auglýsing, sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem spurt er um aukaverkanir eftir bólusetningu við COVID-19, er ekki frá heilbrigðisyfirvöldum komin heldur einstaklingi sem hefur dreift fjölda greina og skilaboða gegn bólusetningu á samfélagsmiðlum. Forstjóri Lyfjastofnunar segir auglýsinguna villandi og geta vakið upp ótta hjá fólki.

Í auglýsingunni er sagt áríðandi að tilkynna aukaverkanir til Lyfjastofnunar, nefnd dæmi um það sem sagt eru aukaverkanir og hvernig hægt sé að koma tilkynningum á framfæri við stofnunina. Þess er hvergi getið í auglýsingunni hver stendur að henni. Eina heitið sem þar er að finna er á Lyfjastofnun sem kemur þó hvergi nálægt auglýsingunni. Jafnframt er að finna orðalag á borð við: Stöndum saman, styðjum vísindi og alþekkta setningu úr baráttunni við COVID: Við erum öll almannavarnir.

Fram kemur í frétt á Mbl.is að Vilborg Björk Hjaltested hafi keypt auglýsinguna í gegnum fyrirtæki sitt Bjuti ehf. Hún er eitt Hjaltested-systkinanna sem tengjast Vatnsendajörðinni í Kópavogi en dómsmál um hana hafa verið tíð vegna deilna um eignarhald og greiðslur vegna uppbyggingar þar. Hún var meðal þeirra sem tilgreind voru í umfjöllun DV um auðmenn Kópavogs árið 2013 og eignir hennar þá metnar á 1,3 milljarða króna. Ekki náðist í Vilborgu við vinnslu fréttarinnar. Vísir ræddi við hana í dag. Hún vildi ekki tilgreina hvers vegna auglýsingin væri birt nafnlaus, véfengdi niðurstöður rannsókna á virkni og öryggi bóluefna og hélt því ranglega fram að Lyfjastofnun hefði viðurkennt að sextán hefðu látið lífið á Íslandi vegna bóluefnisins, að því er fram kemur í frétt Vísis.

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd

Vilborg hefur deilt fjölmörgum greinum og myndum á Facebook-síðu sinni þar sem lýst er andstöðu við og tortryggni á bólusetningar. Þar hefur hún einnig haldið því ranglega fram að litlu færri hafi látist af völdum bólusetninga en COVID-19 hér á landi og virðist vísa til tilkynninga um andlát eftir bólusetningu og fullyrða að þau séu vegna bólusetningar.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstóri Lyfjastofnunar, segir mikilvægt að fólk tilkynni mögulegar aukaverkanir en segir að þá eigi eftir að rannsaka hvort atvikin tengist bólusetningunni í raun. Slíkar rannsóknir hafa ekki leitt í ljós tengsl milli bólusetninga og andláta. „Þetta eru sextán tilkynningar um andlát í tengslum við bólusetningu með mislangri tímasetningu. Það var hugað sérstaklega vel að þessu í upphafi þegar komu tilkynningar um fimm andlát. Þetta var allt í þeim hópi sem var mjög aldraður og hrumur og með undirliggjandi sjúkdóma. Þá fór af stað sérstök óháð rannsókn hjá embætti landlæknis. Þar var ekki hægt að sýna fram á nein tengsl milli þessara andláta, þetta er allt skoðað mjög nákvæmlega og það er ekkert sem hefur komið fram að það sé aukning í dánartíðni í hópunum sem er verið að bólusetja en alla jafna.“

Rúna segir auglýsinguna villandi og til þess fallna að vekja ótta. „Þetta er alveg nýtt hjá okkur og við höfum nú ekki fengið þetta áður.“ Rúna segir mikilvægt að fólk tilkynni um mögulegar aukaverkanir en það sé best gert í gegnum eyðublað á síðu Lyfjastofnunar, bæði til að tryggja sem nákvæmastar upplýsingar og til að tryggja persónuvernd, sem ekki sé raunin ef fylgt er þeim leiðum sem mælt er með í auglýsingunni.