Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Stúdentaráð hvetur HÍ til að hætta rekstri spilakassa

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Stúdentaráð Háskóla Íslands álítur að skólinn eigi ekki að hafa aðkomu að rekstri spilakassa og telur ótækt að stjórnvöld fjármagni ekki byggingar, viðhald auk rannsóknar- og kennslutækja. Löngu sé tímabært að það viðhorf breytist að Háskólinn sjálfur beri ábyrgð á uppbyggingu og viðhaldi húsnæðis síns. 

Þetta kemur fram í ályktun Stúdentaráðs frá 10. maí þar sem segir að rekstur spilakassa geti haft víðtækar afleiðingar fyrir þau sem þá stundi.

Rannsóknir hafi leitt í ljós að spilavandi sé algengari meðal þeirra sem tilheyra viðkvæmari hópum samfélagsins.

Vitnað er í orð Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra frá 10. mars um að hún styddi auknar fjárveitingar til Háskólans og að ekki væri réttlætanlegt að fjármagna hann með happdrættisfé.

Í ályktun Stúdentaráðs segir að Háskóli Íslands sé fyrst og fremst menntastofnun sem beri að þjóna íslensku samfélagi.

Háskólinn eigi ekki að reka spilakassa því hann sé ríkisrekin stofnun og að það sé á ábyrgð stjórnvalda að fjárframlög til hans séu viðunandi.

Saga happdrættisins er rakin í stuttu máli en Háskóli Íslands hefur reist 24 byggingar fyrir happdrættisfé allt frá stofnun þess árið 1933.

Stúdentaráð metur hygmyndir Happdrættis Háskólans um spilakort vera framfaraskref en styður þó mat fagfólks um að það skref sé ófullnægjandi. Ekki standist skoðun að Háskóli Íslands reki spilakassa.

Jafnframt hafi pólítískan vilja skort til að taka málið föstum tökum og að ábendingar HHÍ, Landsbjargar og Rauða krossins, sem reka spilakassa, snúist um úrbætur á regluverki um happdrætti fremur en að leggja peningaspil af.  

„Stúdentaráð hvetur Háskólann til að taka skýra afstöðu, segja skilið við umræddan rekstur og setja gott fordæmi fyrir aðrar stofnanir sem hafa aðkomu að samskonar starfsemi.“

Stúdentaráð fagnar því að forseti ráðsins taki þátt í störfum starfshóps rektors um álitaefni sem tengjast tekjuöflun happdrættisins.