Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Óttast allsherjarstríð milli Ísraela og Palestínumanna

epa07161989 Palestinians inspect the rubble of a destroyed building of Al-Aqsa TV belonging to the Hamas movement following Israeli air strikes in Gaza City, Gaza Strip, 13 November 2018. According to reports, Palestinian militants fired 300 rockets and
 Mynd: RÚV - EPA
Leiðtogar palestínsku Hamas-samtakanna á Gaza sögðu í kvöld að samtökin hefðu skotið yfir 200 flugskeytum yfir landamærin að Ísrael til að hefna fyrir mannskæða loftárás Ísraela á háhýsi í Gazaborg. Erindreki Sameinuðu þjóðanna segir mikla hættu á því að blóðug átök síðustu daga þróist út í eiginlegt stríð ef leiðtogar ríkjanna tveggja grípa ekki í taumana.

Nær 40 fallin

Þrjár ísraelskar konur féllu í flugskeytaárásum Palestínumanna í gær og minnst 35 Palestínumenn létust í árásum Ísraela á Gaza, þar af tíu börn.  Hundruð særðust. Varnarmálaráðherra Ísraels, Benny Gantz, segir þetta „bara byrjunina" og Ismail Haniyeh, leiðtogi Hamas, segir að ef Ísraelar vilji magna upp ófriðarbálið, þá séu Hamasliðar tilbúnir að svara í sömu mynt.

Í yfirlýsingu frá hernaðararmi samtakanna segir að liðsmenn þeirra væru „að skjóta 110 flugskeytum að Tel Aviv-borg" og 100 flugskeytum að bænum Beersheva, til að svara endurnýjuðum árásum Ísraela á heimili fólks á Gazasvæðinu.

Venjulegt fólk greiðir skelfilegan fórnarkostnað stríðsins

Tor Wennesland, erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Ísraels og Palestínu, brýnir leiðtoga ríkjanna til að hætta vopnaskakinu hið snarasta til að koma í veg fyrir stríð. „Stöðvið skothríðina án tafar," skrifar hann á Twitter.

„Við færumst óðfluga nær allsherjar stríði. Leiðtogar allra aðila verða að sýna ábyrgð og draga úr spennu. Fórnarkostnaður stríðs á Gaza er skelfilegur og bitnar á venjulegu fólki. Sameinuðu þjóðirnar vinna að því með öllum hlutaðeigandi að koma á friði. Stöðvið ofbeldið núna," skrifar Wennesland.

Engin sátt náðist þó um ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um átökin þar eystra. Haft er eftir heimildarmönnum að slík ályktun strandi á Bandaríkjastjórn, sem vinni að vopnahléssamkomulagi á bak við tjöldin og óttist að ályktun Öryggisráðsins geti spillt fyrir frekar en hitt. Öryggisráðið kemur saman á morgun til að ræða ástandið í Ísrael og Palestínu.

Harkaleg framganga lögreglu á síðustu dögum Ramadan

Ófriðarbálið blossaði upp í kjölfar harkalegrar framgöngu ísraelsku lögreglunnar í og við al-Aqsa moskuna í Jerúsalem síðustu daga. Hefur lögreglan ítrekað ráðist að fólki við og í moskunni og skotið gúmmíhúðuðum stálkúlum, táragasi og hvellsprengjum.

Um eða yfir 1.000 Palestínumenn hafa særst í aðgerðum lögreglunnar við moskuna og víðar í Austur-Jerúsalem frá 7. maí, samkvæmt upplýsingum Mannúðarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.

Hamas hóf flugskeytaárásir þegar lögregluaðgerðirnar héldu áfram eftir að frestur sem samtökin gáfu til að hætta þeim rann út. Þeim árásum var svarað með fyrrnefndum loftárásum Ísraela, sem aftur var svarað með enn frekari flugskeytahríð frá Gaza.