Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Miklu meiri eldsmatur en áður og hættan vaxandi

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RUV
Slökkvilið á Suður- og Vesturlandi hafa síðustu daga farið í að minnsta kosti 35 útköll vegna gróðurelda, fleiri elda en ratað hafa á gróðureldalista Náttúrustofnunar Íslands frá árinu 2006. Loftslagssérfræðingur segir þurrkana undanfarið ekki óeðlilega, en að afleiðingarnar geti verið alvarlegri en áður. Bregðast þurfi við nýjum veruleika.

Gróðureldar algengir á vorin

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur haldið skrá yfir gróðurelda síðustu ár, frá árinu 2006 hafa 32 eldar verið skráðir hjá stofnuninni, sá minnsti 0,05 hektarar við Gróttu árið 2017, þá brann aðallega hvönn. Sá stærsti, Mýreldarnir miklu sem brunnu árið 2006, fóru yfir hvorki meira né minna en 6700 hektara. Stofnunin er ekki búin að skrá alla þá elda sem hafa gert sér mat úr skraufþurrum gróðri sunnan- og vestanlands síðustu tvær vikur.

Viðkvæmt ástand

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Gróðureldur á Laugarnesi í Reykjavík í gær.

Slökkviliðsembættin halda utan um útköll vegna gróðurelda, hvert fyrir sig Fréttastofa hafði samband við slökkviliðsembætti á Suður- og Vesturlandi og spurði um fjölda útkalla það sem af er mái.  Útköllin reyndust vera orðin að minnsta kosti 35 talsins. Hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu eru þau 24, það stærsta í Heiðmörk þar sem 60 hektarar urðu eldi að bráð. Vernharð Guðnason, deildarstjóri hjá aðgerðasviði, man ekki eftir jafn viðkvæmu ástandi. Brunavarnir Suðurnesja hafa verið kallaðar út í fjórgang, stærsta útkallið var í gær þegar tæplega tveir hektarar brunnu við eyðibýlið Ásláksstaði á Vatnsleysuströnd. Slökkvilið Akraness- og Hvalfjarðarsveitar hefur farið í þrjú útköll, þar voru fulltrúar slökkviliðsins í eftirlitsferð í morgun.

Litlu munaði að sumarbústaðahverfi brynni

Hjá Brunavörnum Árnessýslu eru útköllin orðin fjögur.  Unna Björg Ögmundsdóttir, starfsmaður embættisins, segir að vegfarandi sem stökk út með skóflur og slökkti eld í Grímsnesi þann 6. maí hafi hugsanlega bjargað sumarhúsabyggðinni, þá hafi eldur sem kviknaði út frá slípirokki í Flóahreppi verið fimm metrum frá því að læsa sig í bústað þegar tókst að hemja hann. Slökkviliðsmenn í Borgarbyggð, Dalabyggð og Reykhólahreppi hafa sloppið við útköll, enn sem komið er. Það eru allir á varðbergi því ef miða má við reynslu síðustu daga er spurningin ekki hvort fleiri eldar kvikna heldur hvar þeir kvikna næst.

Þurrasta vor frá árinu 1995

Eldarnir kvikna nær undantekningalaust á vorin eða snemma sumars, á þurrasta tíma ársins. Halldór Björnsson, sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að fyrstu fjórir mánuðir ársins hafa verið þeir þurrustu frá árinu 1995 en það þurfi ekki að fara lengra aftur en til ársins 2019 til að finna lengri þurrkakafla. Aðstæður séu þó verri nú, minni snjór í vetur og þurrari mánuðir á undan. „ Þó þessi þurrkakafli sé ekki svo afbrigðilegur verður það þannig að líkur á gróðureldum eru meiri því allt er orðið miklu þurrara,“ útskýrir hann.  

„Miklu meiri eldsmatur en áður“

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags hjá Veðurstofu Íslands.

Það sem af er maí hafa fallið 0,2 millimetrar af úrkomu en það bleytir ekki upp í neinu og Halldór segir ekki rigningu í kortunum næstu tíu daga. Í skýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi er varað við því að með aukinni gróðursæld, meiri útbreiðslu skóga og minnkandi beit aukist hætta á miklu tjóni af völdum gróðurelda. „Það sem hefur breyst er að við erum komin með umhverfi sem er miklu eldhættara, miklu meiri eldsmatur en áður var.“ 

Halldór segir mikilvægt að bregðast við þessari nýju stöðu, það sé liður í mikivægri áhættustýringu. Það þurfi að endurskoða gróður í kringum sumarbústaði og hvernig skógar eru ræktaðir, þannig að inni á milli séu gróðursett belti af trjám sem brenna hægar og geta hamið útbreiðslu elds. Hann bendir sumarbústaðaeigendum á gagnlega vefsíðu þar sem nálgast má ráðleggingar. „Þetta er eitthvað sem menn hafa almennt ekki verið að hugsa um, skiljanlega því þetta hefur ekki verið slík áhætta en hún er núna vaxandi og það er kominn tími til að við hugum að þessu líka.“ 

Engin grill, enga slípirokka, engar kamínur 

Ríkislögreglustjóri hefur í samráð við lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra á Vestfjörðum, Vesturlandi, Höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi hafa lýst yfir hættustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum allt frá Breiðafirði að Eyjafjöllum. 

Almenningi og sumarhúsaeigendum á svæðinu er ráðið frá því að kveikja eld innan- eða utandyra, grilla hvorki á einnota grillum né venjulegum, kanna flóttaleiðir við sumarhús, huga að brunavörnum, sleppa því að vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista, fjarlægja eldfim efni við hús, s.s. gaskúta og bleyta í gróðri í kringum hús ef þurrt er. 

 

Leiðrétting: Í fyrr útgáfu kom fram að stærstu gróðureldarnir á lista Náttúrufræðistofnunar hefðu verið á Snæfellsnesi, það er rangt, þeir voru á Mýrum í Borgarbyggð .