Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Indverskt afbrigði COVID-19 hefur dreifst um allan heim

epa09172028 A suspected COVID-19 patient receives oxygen supply at a Sikh shrine, or gurdwara, where oxygen is made available for free by various Sikh religious organizations in New Delhi, India, 01 May 2021. The country has reported a record number of 400,000 new COVID-19 cases in one day.  EPA-EFE/IDREES MOHAMMED
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, greinir frá því að það afbrigði veirunnar sem veldur COVID-19 og talið er meginorsök neyðarástandsins á Indlandi um þessar mundir hafi greinst í tugum ríkja heims. Önnur bylgja heimsfaraldurs kórónaveiru hefur geisað á Indlandi um nokkurra vikna skeið og er sóttin skæðari þar þessa dagana en nokkurs staðar annars staðar.

 Hundruð þúsunda Indverja greinast með COVID-19 á hverjum degi og dag hvern deyja þúsundir af völdum sjúkdómsins. Ein helsta ástæða þessa er bráðsmitandi afbrigði veirunnar sem fyrst greindist á Indlandi í október í fyrra og kallast B.1617.

Í tilkynningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar segir að af þeim gögnum sem stofnunin hefur aðgang að megi ráða að þetta afbrigði hafi greinst í 44 ríkjum í öllum sex umdæmum stofnunarinnar. Að auki hafa stofnuninni borist tilkynningar um að þessa skæða afbrigðis hafi orðið vart í fimm ríkjum til viðbótar, en staðfestingar á þeim tilkynningum er enn beðið.