Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Geymslur ekki bótaskyldar vegna stórbruna

Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason - RÚV
Fyrirtækið Geymslur sem rak samnefnt geymsluhúsnæði í Miðhrauni í Garðabæ er ekki bótaskylt vegna tjóns sem varð í eldsvoða í apríl 2018. Hæstiréttur kvað upp dóm þess efnis í dag. Húsnæðið brann til grunna og misstu margir allt það sem þeir geymdu í húsnæðinu.

Einn þeirra sem leigðu geymslur hjá fyrirtækinu stefndi því og krafðist bóta á grundvelli þess að hann hefði keypt geymsluþjónustu af fyrirtækinu. Þeirri kröfu hefur nú verið hafnað á öllum dómstigum. Það byggir á því að Geymslur leigðu út húsnæði þar sem fólk gat geymt vörur og gerði það á grundvelli húsaleigulaga. Jafnframt var því hafnað að tjónið mætti rekja til vanrækslu eða saknæms hátternis fyrirtækisins og starfsmanna þess.

Fjöldi fólks og fyrirtækja leigði geymslur hjá Geymslum og getur dómurinn haft fordæmisgildi fyrir það fólk og í sambærilegum málum.