Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gagnrýna að fyrri ferðagjöf renni út um mánaðamót

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á sama tíma og Samtök ferðaþjónustunnar fagna því að stjórnvöld hafi lagt til að ný ferðagjöf verði gefin til landsmanna til að draga úr neikvæðum áhrifum á atvinnulífið í kjölfar COVID-19, þá gagnrýna samtökin það að fyrri ferðagjöf falli senn úr gildi.

Ferðagjöf stjórnvalda sem gefin var út í fyrra átti upphaflega að renna út um áramót, en gildistími hennar var framlengdur til vors. Á vormánuðum var boðuð ný ferðagjöf og í kjölfarið gefið út að fyrri ferðagjafir sem ekki hafa verið nýttar fyrir 1. júní falla sjálfkrafa niður.

Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um breytingu á lögum um ferðagjöf er lagt til að ferðagjafir fyrir árið 2020 mættu vera með sama gildistíma og hin nýja ferðagjöf sem nú stendur til að gefa. Þá er jafnframt lagt til að gjafirnar gildi til 31. október, en ekki til 31. ágúst eins og lagt er til í frumvarpi.

„Starfsfólki í ferðaþjónustu sem er að vinna við ferðaþjónustu á hánna tíma þarf að hafa svigrúm til að nýta ferðagjöfina og því leggja samtökin til að ferðagjöfin gildi til 31. október nk,“ segir í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um frumvarpið.

Í umsögn Persónuverndar um frumvarpið kemur svo fram að stofnunin er á lokastigi með athugun sína á vinnslu persónuupplýsinga sem forritið Ferðagjöfin veitir aðgang að í farsíma notenda. Persónuvernd hóf frumkvæðisathugun á vinnslu persónuupplýsinga í forritinu í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar.

„Fjölmiðlaumfjöllun bendir til þess að í upphafi hafi verið óskað eftir of víðtækum persónuupplýsingum,“ sagði Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, í samtali við fréttastofu í haust vegna málsins.