Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Slökkviskjóla leigð að utan en óvíst hvenær hún kemur

11.05.2021 - 15:21
Mynd með færslu
Mynd tekin á æfingu Landhelgisgæslunnar. Mynd: Landhelgisgæslan
Landhelgisgæslan hefur fengið slökkviskjólu, sem hengd er neðan á þyrlu og getur borið á milli þúsund og tvö þúsund lítra af vatni, leigða frá Svíþjóð í stað þeirrar sem eyðilagðist í kjölfar gróðurelda í Heiðmörk í síðustu viku.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að nú sé unnið hörðum höndum að því að finna leiðir til að koma henni til landsins sem allra fyrst, en vegna stopulla flugsamgangna er enn ekki ljóst hvenær það tekst. 

Á meðan er engin slökkvigeta úr lofti til þess að bregðast við hugsanlegum gróðureldum, eins og fréttastofa greindi frá í gær.

Ásgeir segir að þyrlusveit Gæslunnar aðstoði áfram vegna gróðurelda, meðal annars voru tveir slökkviliðsmenn fluttir með þyrlu eftir að gróðureldur kviknaði í Grímsnesi fyrr í dag.

Í fyrsta sinn er hættustig í gildi vegna gróðurelda. Almannavarnir hafa, í samráði við slökkviliðsstjóra á Vestfjörðum, Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi, ákveðið að hækka viðbúnaðarstigið og banna allan opinn eld.

Ásgeir segir að þetta sýni þörfina fyrir því að hér á landi sé slökkviskjóla til taks og það skipti miklu máli að það gerist hratt.