Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sagði „sérstakt“ að hætta bólusetningum með Janssen

Mynd með færslu
Forsætisráðherrann Mette Frederiksen og Jakob Ellemann-Jensen, formaður Venstre, eru á einu máli um að leyfa beri umskurð sveinbarna Mynd: L. Sabroe - DR
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, forðaðist að gagnrýna ákvörðun heilbrigðisyfirvalda að taka bóluefni Janssen út úr bólusetningaáætlun landsins en sagði hana „sérstaka“. Leiðtogi Íhaldsflokksins lagði til að forystumenn stjórnmálaflokkanna á danska þinginu yrðu bólusettir með bóluefninu í beinni útsendingu.

Danir hafa ákveðið að nota hvorki AstraZeneca né Janssen í bólusetningu við COVID-19. Sérfræðinganefnd á vegum norsku ríkisstjórnarinnar hefur lagt til að Norðmenn fari sömu leið.

Málið var rætt á danska þinginu í dag þar sem Mette Frederiksen, forsætisráðherra, sat fyrir svörum. TV 2 segir umræðuna benda til þess að þingmenn væru ekki á eitt sáttir við Janssen-leysið.

Frederiksen sagði „sérstakt“ að bóluefnið hefði verið tekið út úr bólusetningaáætluninni. „Ég ætla ekki að leggja mat á þessa ákvörðun en vil taka fram að hún er ekki pólitísk.“

Hans Redder, stjórnmálaskýrandi TV2, segir forsætisráðherrann hafa forðast að svara því beint hvort hún væri sammála því að ekki ætti að nota Janssen-bóluefnið. „Maður þarf ekki að hafa fylgst lengi með orðræðunni í stjórnmálum til að hún reyndi að skapa ákveðna fjarlægð.“ Redder sagðist hafa heimildir fyrir því að óánægja ríkti innan ríkisstjórnarinnar um þessa ákvörðun. „En Mette Frederiksen getur bara ekki sagt það.“

Jakob Elleman-Jensen, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sagðist ekki skilja af hverju þessi ákvörðun hefði verið tekin. „15 milljónir hafa verið bólusettar með þessu bóluefni í Bandaríkjunum, jafn margar konur og karlar. Aðeins einn karl hefur fengið blóðtappa og enginn þeirra dáið. Við erum á villigötum miðað við hvernig COVID-veikindi leggjast á fólk,“ hefur Berlingske eftir Elleman-Jensen.

Søren Pape Poulsen, formaður danska Íhaldsflokksins, sagði réttast að forystumenn flokkanna á þinginu yrðu bólusettir með bóluefninu í beinni útsendingu. Frederiksen forsætisráðherra leist illa á þá hugmynd, bólusett væri eftir ákveðinni forgangsröð og leiðtogarnir yrðu að bíða eins og aðrir.  „Burtséð frá myndavélum þá er ég reiðubúinn að láta bólusetja mig með Janssen,“ sagði Poulsen.

Búist er við frumvarpi frá Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra, þar sem bólusetning með þessum bóluefnum verður gefin frjáls. Reiknað er með að frumvarpið taki gildi 20. maí.