Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Rúmlega þúsund bólusett á Austurlandi

11.05.2021 - 21:07
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Rúmlega þúsund verða bólusett á Austurlandi á morgun, á Egilsstöðum og Eskifirði. Til stendur að klára að bólusetja 1966-árganginn með bóluefni AstraZeneca, halda áfram að bólusetja fólk á aldrinum 18-65 ára með undirliggjandi áhættuþætti með bóluefni Pfizer og Janssen, og einnig á að bólusetja þó nokkurn fjölda starfsfólks leikskóla og grunnskóla.

Auk þess hefur verið boðað starfsfólk hjúkrunarheimila sem nú þegar hefur fengið fyrri skammt af AstraZeneca-bóluefninu. Jónína Óskarsdóttir, fagstjóri hjúkrunar á heilsugæslusviði, segir að konum yngri en 55 ára í þeim hópi hafi verið boðið að fá bóluefni Pfizer í stað þess að fá seinni skammtinn af AstraZeneca. Það hafi þó komið á óvart hversu margar þeirra hafi látið vita af því að þær kysu frekar að fá seinni skammtinn af AstraZeneca. „Umræðan um AstraZeneca hefur verið það neikvæð að maður bjóst jafnvel við að fólk undir aldursmörkunum myndi frekar vilja fá Pfizer,“ segir hún.

Af þeim rúmlega þúsund sem verða bólusett í landshlutanum á morgun fá um 700 fyrri skammt. „Við gleðjumst yfir því hvað við getum bólusett marga á morgun,“ segir Jónína. Nú hafa um það bil 47 prósent íbúa á Austurlandi fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni.