Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Öðruvísi gos en við erum vön að sjá“

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Gosið í Fagradalsfjalli heldur áfram að koma jarðfræðingum í opna skjöldu, tæpum tveimur mánuðum eftir það hófst. Samkvæmt nýjustu mælingum hefur hraunrennslið verið um 70 prósentum meira en verið hefur áður í gosinu og það er nú tvöfalt öflugra en það hefur verið lengst af. „Það að gos sé vaxandi á áttundu viku er óvanalegt og það eru enginn merki um að við sjáum fyrir endann á því. Þetta er öðruvísi gos en við erum vön að sjá,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur.

Rannsóknir hafa sýnt að í 95 prósentum tilvika dregur úr gosi eftir að það hefst en jarðeldarnir í Fagradalsfjalli virðast vera undantekning þar á. „Veruleg aukning hefur orðið í hraunrennsli í Fagradalsfjalli síðustu vikuna,“ segir í nýrri frétt á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Aukið flæði haldist í hendur við hækkandi kvikustróka og öfluga framrás hraunsins í Meradölum. Rúmmál hraunsins er nú orðið rúmlega 30 milljónir rúmmetrar og flatarmál þess tæplega 1,8 ferkílómetrar.

Og gosið á Reykjanesskaga virðist mjög frábrugðið öðrum gosum. Flest eiga upptök sín í kvikuhólfum undir megineldstöðvum „þar sem þrýstingur í hólfinu og stærð þess virðist ráða mestu um stærð og lengd goss.“  En þetta gos virðist stýrast af gosrásinni og hversu mikið hún getur flutt. „Rásin sem opnaðist var tiltölulega þröng og löng,“ segir á vef Jarðvísindastofnunar og aukning með tíma bendi til þess að rásin fari víkkandi.  

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir breytinguna vera mesta í Meradölum og í hinum „nafnlausa dal“ eins og hann er kallaður.  Þetta aukna hraunflæði passi við tilfinningu fólks um að meiri ákafi hafi verið í gosinu síðustu vikuna og mælingar staðfesti þann grun.

Magnús bendir á að gosið sé vaxandi og mun öflugra en það var í upphafi og það sé óvanalegt. „Þetta er öðruvísi gos en við erum vön að sjá.“  

Íbúar á Suðvesturhorninu hafa notið þess að sjá tignarlega kvikustróka undanfarna daga og Magnús segir flesta sammála um að strókavirknin og óróinn séu mjög tengd. „Þetta tengist uppsöfnun gass sem verður síðan óstöðugt og ryðst upp. Og eftir því sem rennslið eykst geta strókarnir orðið hærri.“ 

Magnús telur að það að gos sé vaxandi eftir nærri tvo mánuði sé mjög óvanalegt. „Það eru engin merki um að sjáum fyrir endann á því. Það er enginn leið á þessari stundu að segja til um hve lengi gosið muni vara eða hvort hraunrennslið haldi áfram að aukast.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV