Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Mjög sárt að sjá þetta gerast enn og aftur“

11.05.2021 - 16:25
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur náð tökum á gróðureldum í Hafnarfirði, um það bil kílómetra sunnan við Hvaleyrarvatn. Um það bil hektari brann, gróinn fjölbreyttu skóglendi. Steinar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, segir mjög sárt að horfa upp á eyðilegginguna.

„Svæðið er að mestu vaxið skógi sem félagar í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar og starfsmenn hafa gróðursett á síðustu 20-25 árum. Þarna eru aspir, birki, greni, fura og víðir. Það er mjög sárt að sjá þetta gerast enn og aftur því við í Hafnarfirði eigum langa sögu af gróðureldum. Ég man eftir fyrsta eldinum þegar ég var strákur í upplandi Hafnarfjarðar 1979, sem var mjög þurrt vor, ekkert ósvipað vorinu núna,“ segir Steinar. 

Guðs mildi að starfsmenn hafi verið á svæðinu

Steinar hefur ekki hugmynd um eldsupptök: „Þetta var mjög einkennilegt því við vorum hérna þrír starfsmenn félagsins að vinna rétt suður af Kjóadalnum, að grisja. Þá blossaði þessi eldur upp skammt frá okkur, við höfðum ekki orðið varir við neitt óvenjulegt. Þetta var guðs mildi að við vorum hérna í nágrenninu og að slökkviliðið gat brugðist hratt við,“ segir hann.

„Það er alltaf hræðilegt að sjá þetta. Ég heyrði einhvern tímann sagt að það væri ekkert skóglendi á landinu sem hefði jafnoft orðið skógareldum að bráð eins og skóglendið í upplandi Hafnarfjarðar, í kringum Hvaleyrarvatn og hér í kringum okkur. Þetta er alltaf mikið áfall og þetta er martröðin sem maður vonar að verði ekki. Og það er einmitt akkúrat þessi tími, í maí og sérstaklega þegar það er norðanátt og gróðurinn ekki vaknaður af dvala, sem er hættulegi tíminn,“ segir hann. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV