Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Mannbætandi verk fyrir sál og sinni

Mynd: EPA / Bjartur

Mannbætandi verk fyrir sál og sinni

11.05.2021 - 14:20

Höfundar

Þráður mennskunnar og viljans til betra lífs liggur í gegnum skáldsöguna Nickel-strákarnir, eftir Colson Whitehead, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi. „Hún sýnir hve þunnt skæni siðmenningar var og er hjá mörgum hvítum Bandaríkjamönnum, einkum körlum, sem kalla sig kristna og líta á sig sem gott fólk.“

Gauti Kristmannsson skrifar:

Okkur er vísast öllum í fersku minni þegar frásagnir af ofbeldi og misþyrmingum barna á heimilum á vegum ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila komu fram fyrir nokkrum árum. Börnum var haldið gegn vilja sínum á stofnunum sem áttu að veita þeim vernd, en þær gerðu illt verra, margfalt verra. Þessar frásagnir sviptu einni hulu af tilbúnu sakleysi okkar þjóðar og sýndu að mannvonskan þreifst hér mjög vel langt fram eftir síðustu öld. Vonandi hefur orðið raunveruleg breyting þar á.

En þegar kynþáttahatri er bætt við inn í jöfnuna nær mannvonskan út yfir allan þjófabálk og það er efni þessarar verðlaunasögu eftir Colson Whitehead í fínni þýðingu Árna Óskarssonar. Hún sýnir hve þunnt skæni siðmenningar var og er hjá mörgum hvítum Bandaríkjamönnum, einkum körlum, sem kalla sig kristna og líta á sig sem gott fólk. Hræsnin er svo gífurleg á stundum að manni blöskrar, eða ekki, að blöskra nær ekki yfir þá tilfinningu sem vaknar við lesturinn. Sagan er samt ekkert að velta sér upp úr misþyrmingum og pyntingum; sögumaður sem segir söguna frá sjónarhorni liðins áratugs segir blátt áfram frá og það bætir eiginlega við hryllinginn. Þetta er samt falleg saga, saga af einum sem komst lifandi frá hildarleiknum og kemur undir sig fótunum í New York í framhaldi af mannréttindabótum Kennedys og Johnsons; borginni sjálfri er líka stillt upp sem andstæðu við Suðrið, þrátt fyrir staka gargandi fasista er umhverfið miklu mannlegra en í fortíðinni.

Frásagnartæknin er býsna lunkin, knappur textinn er ekkert að bjóða lesendum miklar upplýsingar í byrjun hvers kafla, þar sem hvörf verða, eða þegar farið er á milli tímabila, en annar meginstrengur sögunnar gerist á sjöunda áratugnum þegar strákarnir eru vistaðir hinum svokallaða Nickel-skóla í Flórídaríki. Kaldhæðnin er nístandi í því hvernig söguhetjan, Elwood, lendir þarna, hann er vel gefinn unglingur og langar til að mennta sig, lesa bókmenntir og hann hefur safnað sér fyrir undirbúningsnámskeiði í háskóla. Hann þarf að fara á puttanum í háskólann, fær far hjá bílþjófi og er handtekinn með honum og dæmdur til vistar í þessum hræðilega skóla. Hann er byggður á raunverulegum skóla, Arthur G. Dozier drengjaskólanum svonefnda, en honum var lokað árið 2011 og farið að rannsaka hann og þær ómerktu grafir sem voru á landareigninni.

Þetta er því nánast eins og heimildasaga, ég geri samt ráð fyrir því að drengirnir séu skáldaðar persónur, en spyrja má hvort höfundur hafi nýtt sér upplýsingar til að lýsa óþokkunum, sem þarna störfuðu, upp úr þeim skýrslum sem fyrir liggja eftir margra ára rannsóknir á skólanum. Við fylgjum drengjunum, þeim Elwood og vini hans Turner, í gegnum tíma þeirra við skólann og fáum smám saman mynd af þeirri meðferð sem þeir og aðrir vistmenn þurfa að þola, allt frá einangrun til barsmíða og hreinlega morða. Um leið liggur þráður mennskunnar og viljans til betra lífs í gegnum söguna, og við finnum hann í þeim köflum sem segja frá örlögum eins þeirra eftir dvölina, hvernig hann nær undir sig fótunum í New York og verður atvinnurekandi og sæmilega stæður borgari.

Höfundur byggir þetta mjög vel upp, hann byrjar á formála frá sjónarhorni síðustu ára þegar hneykslið verður opinbert. Síðan fléttar hann saman frásagnirnar af Elwood frá því áður en hann lendir í Nickel-skólanum til þess dags að hann yfirgefur hann og þeirri sem segir frá afdrifum hans eftir það. Frásagnirnar víxlast nokkuð á og stundum þarf maður að vera vakandi við lesturinn þegar höfundurinn færir okkur formálalaust á milli tíma, jafnvel inni í kafla. Þrátt fyrir þessa kænlegu frásagnartöf komumst samt alltaf inn í efnið áður en langt um líður. Þessi framvinda gæðir söguna lestrarspennu og hvetur lesandann áfram. Það er síðan mjög öflug vending í sögunni undir lokin, sem best er að hafa sem fæst orð um fyrir væntanlega lesendur, en hún er afar áhrifarík og hreyfir við manni ofan í allt sem á undan er gengið.

Kerfisbundið kynþáttahatur í Bandaríkjunum hefur mikið verið til umræðu undanfarin ár og við höfum þurft að horfa á það berum augum nýlega eins og þegar Derek Chauvin banaði George Floyd í Minneapolis. Þetta kerfi á sér djúpar rætur, ekki einungis í arfleifð þrælahalds frá fyrri öldum, heldur einnig í hinum svokölluðu Jim Crow-lögum sem sett voru undir lok nítjándu aldar og framan af þeirri tuttugustu. Þau kváðu á um aðskilnað kynþátta í opinberu lífi og voru grundvöllur kerfisbundins misréttis í Bandaríkjunum, einkum í Suðurríkjunum. En þótt þeim hafi verið hnekkt með hæstaréttardómi á sjötta áratugnum og víðtækri mannréttindalöggjöf á þeim sjöunda eru ræturnar djúpar og nærast á kynþáttahatri. Þetta sést meðal annars á því hvernig Repúblikanaflokkurinn vinnur núna skipulega að því að takmarka kosningarétt minnihlutahópa í þeim ríkjum þar sem hann er við stjórn, í þeirri von að þannig geti hann haldið völdum.

Það hafa áður verið sagðar sögur af kynþáttahatri og misbeitingu í Bandaríkjunum, gífurlega áhrifamiklar og merkilegar eins og bækur Fredericks Douglass eða Kofi Tómasar frænda eftir Harriet Beecher Stowe eru bestu dæmin um; sú síðarnefnda er mest selda bók í Bandríkjunum á eftir Biblíunni á nítjándu öld og er hún oft talin hafa haft mikil áhrif á afnám þrælahalds þar í landi. Hún sýnir kannski áhrifamátt bókmennta til að hreyfa við fólki að gera hið góða og rétta og sjá heiminn frá öðru sjónarhorni. En þótt margar bækur hafi verið skrifaðar er ennþá nauðsynlegt að skrifa bækur eins og þessa, því tæki listarinnar til að ná til okkar, tilfinninga og rökhugsunar, eru gífurlega máttug og vel til þess fallin að afhjúpa söguna, að grípa okkur lesendur með persónulegum örlögum einstaklinga, og finna til raunverulegrar samlíðunar með þeim, því skáldið getur farið alla leið inn í huga persónanna og samtímis inn í huga lesenda. Þegar það tekst, og það tekst í þessu tilfelli, höfum við fengið eitthvað mannbætandi fyrir sál og sinni.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Funheitur Whitehead

Bókmenntir

Fær Pulitzer-verðlaun öðru sinni