Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kafbátaeftirlit í 173 daga í fyrra

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Kafbátaeftirlit bandaríska sjóhersins á Norður- Atlantshafi sem stjórnað er frá Keflavík hefur aukist talsvert á síðustu árum. Í fyrra voru P-8 vélar hersins við kafbátaleit í 173 daga, miðað við 21 dag árið 2014 þegar kafbátaeftirlit hófst hér á nýjan leik. Athygli hefur vakið að talsvert umferð herflugvéla hefur verið síðustu daga um Keflavíkurflugvöll.

Ísland miðstöð áhafnaskipta

Fyrstu daga maímánaðar hafa komið nokkuð margar herflutningavélar og meðal annars eldsneytisvélar hingað til lands. Flestar vélarnar hafa komið frá bandaríska herflugvellinum í Lossiemouth í Skotlandi og nokkrar frá Sigonella herflugvellinum á Sikiley á Ítalíu.

Í svari frá Landhelgisgæslunni um hver sé ástæðan fyrir aukinni umferð herflugvéla um Keflavíkurflugvöll kemur fram að áhafnaskipti fari nú fram vegna kafbátaeftirlits bandaríska sjóhersins hér og annars staðar í Evrópu. Kafbátaeftirlitsvélar á leið frá Bandaríkjunum til Evrópu og þaðan til Bandaríkjanna hafi lent í Keflavík vegna áhafnaskipta. Landhelgisgæslan segir í svarinu að segja megi að Ísland sé eins og áður eins konar miðpunktur áhafnaskipta sem fari fram á sex mánaða fresti.

Að auki fari fram hefðbundið kafbátaeftirlit sjóhersins frá öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli þar sem jafnframt er rekin stjórnstöð fyrir kafbátaeftirlitið. Í morgun hafi verið 140 liðsmenn, væntanlega hermenn, á öryggissvæðinu en þegar mest var hafi þeir verið 250 talsins.

Úr 21 degi í 173

Í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem  lögð var fram á Alþingi í byrjun maí og rædd var í síðustu viku kemur fram að á síðasta ári hafi P-8 vélar, Boeing Poseidon P-8, verið við kafbátaeftirlit í 173 daga, miðað við 21 dag árið 2014 þegar kafbátaeftirlit hófst á nýjan leik héðan. Þetta er talsverð fjölgun. 2017 voru eftirlitsdagarnir 153 og 2016 77. Samkvæmt upplýsingum  Landhelgisgæslunnar er gert ráð fyrir að hér séu að jafnaði 2 til 3 P-8 vélar. Orðrétt segir í skýrslu utanríkisráðherra:  

Þessi fjölgun eftirlitsdaga er skýrt teikn um þær breytingar sem hafa orðið á öryggisumhverfi Íslands.

Í kafla um framkvæmd varnartengdra verkefna á Íslandi kemur fram að framlag Íslands á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og í tvíhliða varnarsamstarfi við Bandaríkin felist fyrst og fremst í þátttöku í loftrýmiseftirliti, loftrýmisgæslu og æfingum bandalagsins og bandalagsríkja, gistiríkjastuðningi og að tryggja öruggan rekstur varnarmannvirkja og búnaðar.

Pólverjar sinna loftrýmisgæslu

14 ár eru liðin frá því að samþykkt var að hefja hér loftrýmisgæslu að beiðni íslenskra stjórnvalda. Fjölmargar þjóðir hafa sinnt því þennan tíma. Í fyrra voru það Norðmenn, Ítalir og Bandaríkjamenn sem sinntu því. Í ár verður það í höndum Norðmanna og  Bandaríkjamanna og í fyrsta sinn tekur Pólland verkefnið að sér. Í skýrslunni kemur fram að ríkin komi hverju sinni með fjórar til 14 orustuþotur hingað og liðsaflinn sé á bilinu 60 til 300 manns.

Í skýrslunni kemur fram að Ísland sinni rekstri og viðhaldi þeirra 140 varnarmannvirkja sem nú sé að finna á skilgreinum öryggissvæðum á Íslandi. 87 þeirra séu í eigu eða á eignaskrá Atlantshafsbandalagsins og 53 í eigu íslenska ríkisins.

Miklar framkvæmdir

Fram kemur að stefnt sé að breytingum og endurbótum á flugskýli bandaríska hersins, flugskýli 831 á öryggissvæðinu, ljúki fyrir árslok. Þá standi yfir bygging þvottastöðvar fyrir flugvélar og ráðgert sé að því verki ljúki um mitt þetta ár. Loks er verið að hefja vinnu við stækkun og byggingu flughlaðs fyrir flugvélar með hættulegan farm og grunn fyrir tímabundna gámabyggð. Í haust var greint frá því að Íslenskir aðalverktakar hefðu fengið þetta verk. Áætlaður kostnaður er um 5,3 milljarðar króna. Þeir fengu verkið að undangengnu útboði bandaríska varnarmálaráðuneytisins. Í  fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins í haust kom fram að áætlað væri að kostnaður við framkvæmdir á flugvellinum frá 2018 til 2023 næmi rúmum 21 milljarði króna. Þær væru að mestum hluta fjármagnaðar af Atlantshafsbandalaginu og bandarískum stjórnvöldum.

Hergagnaflutningar

Í skýrslu utanríkisráðherra kemur  meðal annars fram að frá 2019 hafi utanríkisráðuneytið farið með leyfisveitingar vegna flutninga hergagna um íslenska lofthelgi og reyndar líka í íslenskum loftförum. Samgöngustofa sér um afgreiðslu þessara mála. Frá því í byrjun árs í fyrra hefur borist 81 leyfisumsókn og sama tímabili hefur utanríkisráðuneytið veitt 77 leyfi. Ekki kemur þó fram hvort umsóknum hafi verið synjað.

Í skýrslunni kemur líka fram að tvær heræfingar fóru fram í fyrra, kafbátaeftirlitsæfing og sprengjuleitaræfing. Vegna Covid -19 varð að fresta varnaræfingunni Norður-Víkingi sem átti að halda í fyrravor. Fyrirhugað er að hún fari fram vorið 2022.