Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Noregur: Vilja sleppa Janssen og bólusetja yngra fólk

epa04435079 Norwegian Minister of Health, Bent Hoie, speaks during a press conference at his office in Oslo, Norway, 06 October 2014. A Norwegian aid worker has been diagnosed with Ebola and is to be flown to Norway for treatment, the international medical group Medecins Sans Frontieres confirmed on 06 October. The aid worker, whose identity was not disclosed, contracted the virus while working in Sierra Leone, MSF said.  EPA/CORNELIUS POPPE NORWAY OUT
Bent Høie, heilbrigðisráðherra Noregs. Mynd: EPA-EFE - NTB-Scanpix
Sérfræðinganefnd á vegum norsku ríkisstjórnarinnar mælir með því að bóluefni frá Janssen og Astra-Zeneca verði ekki hluti af bólusetningaáætlun yfirvalda. Þeir sem vilji geti látið bólusetja sig með þeim. Nefndin mælir jafnframt með að fólki á aldrinum 18-25 ára verði hleypt framar í röðina. Lýðheilsustofnun Noregs, sem vill ekki nota Astra-Zeneca, leggur einnig til að Janssen-bóluefnið verði sett til hliðar.

Þetta kemur fram á vef NRK. Danir hafa þegar ákveðið að nota hvorki Janssen né Astra-Zeneca. Bæði bóluefnin eru notuð hér á landi. 

Lars Vorland, formaður sérfræðinganefndarinnar, segir að nefndin vilji ekki að bóluefnið frá Janssen verði notað í bólusetningaáætlun stjórnvalda. Nefndin leggur til að þeir sem vilji geti fengið þessi bóluefni. Það verði þó gert með þeim fyrirvara að þeir fái ákveðnar leiðbeiningar áður. Minni hluti nefndarinnar taldi þetta óþarft. „Það breytir því ekki að fólk sem vill þetta bóluefni lætur bólusetja sig hjá sínum heimilislækni, “ segir Vorland. 

Ákveði norska ríkisstjórnin að taka bóluefnið út seinkar það áætlun stjórnvalda og það gæti dregist fram í miðjan júlí að allir eldri en 18 ára verði að minnsta kosti komnir með fyrri skammtinn.  

Sérfræðinganefndin mælist einnig til þess að yfirvöld færi yngra fólk, aldurshópinn 18-25 ára framar í röðina. „Það er góð leið að nýta sumarið og frí í skólum til að bólusetja þennan aldurshóp til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu COVID-19,“ útskýrir Vorland og bendir á að sumir séu líka að skipta um skóla eða hefja störf í nýrri vinnu.

Bent Høie, heilbrigðisráðherra Noregs, segir að ríkisstjórnin leggi nú mat á þessar tillögur sérfræðinganefndarinnar.

Á vef NRK kemur fram að Lýðheilsustofnun Noregs, FHI, mælist einnig til þess að bóluefnið frá Janssen verði ekki notað. Hún hefur þegar lagst gegn notkun bóluefnisins frá Astra-Zeneca. „Áhættan af því að nota þetta bóluefni er ekki þekkt og þess vegna vitum við ekki hverjir kostirnir eru. Við fáum fleiri skammta frá Pfizer og Moderna og allir eldri en 18 ára verða sennilega búnir að fá sinn fyrsta skammt fyrir lok júlí,“ segir Camilla Stoltenberg, forstjóri FHI.

Anne Spurkland, prófessor í ónæmisfræði, segir í samtali við NRK að erfiðar ákvarðanir bíði norsku ríkisstjórnarinnar. „Bóluefnið veitir vörn gegn COVID-19 en svo höfum séð alvarlegar aukaverkanir af völdum Astra-Zeneca. Fjórir hafa dáið í Noregi eftir að hafa fengið það bóluefni,“ segir Spurkland.

Hvergi hafa borist jafn margar tilkynningar um blóðtappa eftir bólusetningu með Astra-Zeneca og í Noregi miðað við hversu margir skammtar hafa verið gefnir.

Spurkland telur að ríkisstjórnin verði engu að síður að horfa til annarra þátta. „Við bólusetjum til að koma samfélaginu aftur af stað og það gæti haft miklar efnahagslegar afleiðingar að seinka því ferli. Og svo gæti þetta haft alþjóðlegar afleiðingar; hvaða skilaboð erum við að senda til annarra landa?“ 

Öll bóluefnin sem fengið hafa skilyrt markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Evrópu eru notuð hér á landi.

Rúmlega 138 þúsund manns hafa fengið að minnsta kosti einn skammt.  Tæplega átta þúsund teljast nú fullbólusett eftir að hafa fengið bóluefnið frá Janssen. Samkvæmt vef Lyfjastofnunar Íslands hafa sjö tilkynningar borist vegna gruns um aukaverkun eftir bólusetningu. Engin þeirra var alvarleg.

Nærri 58 þúsund Íslendingar hafa fengið bóluefni Astra-Zeneca. Lyfjastofnun hefur fengið 381 tilkynningu, þar af 20 vegna gruns um alvarlega aukaverkun. 

Til stendur að breyta um kúrs hér á landi á næstunni. Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að bólusetja með tilviljakenndum hætti innan hvers forgangshóps í stað þess að bólusetja eftir aldri. Þetta er gert eftir að rannsókn á vegum Íslenskrar erfðagreiningar sýndi fram á að það væri besta leiðin til að ná fyrr markmiði um hjarðónæmi.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV